Helmingi minni hagnaður hjá VÍS

Vátryggingafélag íslands
Vátryggingafélag íslands Kristinn Ingvarsson

Hagnaður VÍS var helmingi lægri á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Hagnaður fyrirtækisins nam 906 milljónum króna en var rúmir tveir milljarðar á sama tíma í fyrra.

Á fyrri helmingi ársins greiddi félagið 1,8 milljarð króna í arð til hluthafa og keypti eigin bréf að nafnvirði 36 milljónir króna fyrir um 307 milljónir.

Iðgjöld á tímabilinu námu um 11,8 milljörðum króna samanborið við tólf milljarða á sama tímabili árið 2013. Framlegð af vátryggingarekstri var 20 milljónir á tímabilinu samanborið við 461 milljónir á fyrstu níu mánuðum ársins 2013. Samsett hlutfall var 100,8% samanborið við 97,1% á sama tímabili 2013

Fjármunatekjur námu um 1,4 milljarði króna samanborið við 2,5 milljarða á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Heildareignir í lok september námu 47,2 milljörðum samanborið við 46 milljarða í árslok 2013.  Þá námu fjárfestingaeignir félagsins 35 milljörðum króna samanborið við 36,5 milljarða í árslok í fyrra.

Eigið fé félagsins nam um 15,4 milljörðum í lok tímabilsins samanborið við 16,6 milljarða í árslok 2013 og arðsemi eigin fjár var 7,6% á ársgrunni samanborið við 17,6% arðsemi í fyrra. Eiginfjárhlutfall var 32,6% í lok tímabilsins og var gjaldþolshlutfall samstæðunnar 3,76 í lok september og hefur það hækkað úr 3,74 frá áramótum.

Tjónaþunginn talsverður

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, segir afkomu félagsins af fjárfestingastarfsemi á þriðja ársfjórðungi hafa verið ágæta og í samræmi við væntingar en ávöxtun fjórðungsins var 9,1% reiknuð á ársgrunni.  „Þegar horft er til vátryggingareksturs á fjórðungnum þá var þróun iðgjaldatekna jákvæð og jukust iðgjöld um 3,9% frá öðrum ársfjórðungi og voru einnig hærri en á sama fjórðungi 2013.  Tjónaþunginn var talsverður og var eigið tjónahlutfall 81,8% sem er hærra en það hefur verið um langt skeið og var samsett hlutfall á fjórðungnum 102,7%,“ segir í yfirlýsingu frá Sigrúnu.

Hún segir tjónaþunga á þriðja fjórðungi og það sem af er árinu hafa verið meiri en búist var við í upphafi ársins og skýrist það annars vegar af fjölgun tjóna milli ára og hins vegar af stóru tjóni sem varð í byrjun júlí. 

Sigrún segir þróunina á fjármálamörkuðum fyrstu níu mánuði ársins leiða af sér að arðsemi af fjárfestingasafni félagsins hafi verið nokkuð undir væntingum stjórnenda og verulega lakari en á sama tímabili 2013.  Meginskýringuna sé að finna í þróun á mörkuðum fyrir verðtryggð skuldabréf og skráð hlutabréf.  

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS.
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK