Stýrivextir haldist óbreyttir

Greining Íslandsbanka spáir því að stýrivextir haldist óbreyttir við næstu …
Greining Íslandsbanka spáir því að stýrivextir haldist óbreyttir við næstu vaxtaákvörðun. mbl.is/Árni Sæberg

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi, sem verður 5. nóvember næstkomandi. Þetta segir Greining Íslandsbanka.

„Rökin fyrir óbreyttum vöxtum verða að okkar mati þau að þrátt fyrir að verðbólgan sé undir verðbólgumarkmiðinu, og að verðbólguhorfur séu nokkuð góðar og hafi batnað undanfarið, eru verðbólguvæntingar enn yfir verðbólgumarkmiðinu og væntanlega mun kröftugur vöxtur innlendrar eftirspurnar á komandi misserum og vaxandi spenna á vinnumarkaði leiða til aukins verðbólguþrýstings,“ segir í morgunkorni greiningarinnar.

Spáð er því að peningastefnunefnd bankans muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum fram á seinni hluta næsta árs en þá er gert ráð fyrir einni 0,25 prósentustiga hækkun og síðan 0,5 prósentustiga hækkun árið 2016. „Ástæðan fyrir þessum hækkunum mun að okkar mati verða að spenna myndist í hagkerfinu á næstu misserum, en samhliða mun verðbólgan aukast sem og verðbólguþrýstingurinn.“

Lengsta tímabil innan verðbólgumarkmiðs

Verðbólgan er nú 1,9% og hefur aukist um 0,1 prósentustig frá síðustu vaxtaákvörðun. Hefur verðbólgan verið undir 2,5% verðbólgumarkmiði bankans frá því í febrúar á þessu ári. „Spáum við því að verðbólgan muni hjaðna nokkuð til áramóta og mælast 1,4% í desember. Mun hún síðan samkvæmt spá okkar aukast aðeins á næsta ári en ekki meira en svo að hún helst í grennd við verðbólgumarkmiðið út spátímabilið, en það nær til loka árs 2016,“ segir jafnframt í morgunkorninu.

Gangi spáin eftir mun þetta verða lengsta tímabil verðbólgu innan þolmaka peningastefnu Seðlabankans frá því verðbólgumarkmið Seðlabankans var tekið upp í mars 2001.

Íslandsbanki að Kirkjusandi
Íslandsbanki að Kirkjusandi mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK