„Hefndarráðstöfun hjá Birni“

Félagið Sportfitness átti félagið Þrek Holding ehf. með félaginu Þrek …
Félagið Sportfitness átti félagið Þrek Holding ehf. með félaginu Þrek ehf. sem var í eigu Björns Leifssonar, eiganda World Class. mbl.is/Styrmir Kári

Rúmlega 663 milljónum króna var lýst í þrotabú Sportfitness ehf. sem var meðeigandi útrásarfélags Björns Leifssonar, Þreks Holding ehf. Sportfitness gekkst í ábyrgð fyrir láni sem var veitt fyrir kaupum á líkamsrækt í Danmörku og segir eigandi þess að gjaldþrotið sé hefndarráðstöfun hjá Birni.

Sportfitness ehf. var í eigu Guðmundar Ágústs Péturssonar, sem einnig á félagið Sportmenn ehf. sem heldur utan um rekstur Reebok fitness líkamsræktarstöðvarinnar í Holtagörðum.

Skiptum á eignalausu búi Sportfitness var lokið þann 7. nóvember síðastliðinn og fékkst ekkert greitt upp í þær 663 milljónir króna sem lýst var í búið.

Félagið stóð ekki undir ábyrgðinni

Árið 2006 stofnuðu Guðmundur Ágúst og Björn Leifsson, eigandi World Class á Íslandi, félagið Þrek Holding ehf. til kaupa á danska líkamsræktarfyrirtækinu Equinox. Áttu félögin Þrek ehf., félag Björns, sem síðar hér ÞS69 ehf. og Sportfitness ehf., félagið til helminga. Að Danmerkurútrásinni stóð þá einnig fjárfestingarbankinn Straumur-Burðarás sem veitti félaginu lán fyrir kaupunum að sögn Guðmundar. Þrek Holding var tekið til gjaldþrotaskipta þann 17. desember 2013. 

Guðmundur segir efnahag Sportfitness hafa verið sterkan á þessum tíma og því hafi félagið gengið í ábyrgð fyrir láninu frá Straumi. „Síðan gerist það í hruninu að Sportfitness er gert upp og eignir félagsins duga nánast fyrir skuldum,“ segir hann. „Þegar kennitöluflakkið fer síðan fram, eða hvað sem menn vilja kalla það, þegar Þrek ehf. verður ÞS69 ehf., þurfti skiptastjórinn að taka afstöðu til allra skulda. Þá kemur í ljós að Sportfitness er einnig ábyrgðaraðili að þessari skuld sem Þrek ehf. var ábyrgðaraðili að,“ segir Guðmundur. „Þá er gerð réttarsátt vegna þess að Sportfitness var uppgert fyrirtæki með engan rekstur og ekkert í því fyrir utan einn leigusamning,“ segir hann. „Það var fyrirsjáanlegt að félagið myndi aldrei standa undir þessari ábyrgð.“

Enginn tilgangur með ráðstöfuninni

Aðspurður segir hann leigusamninginn hafa verið við Reiti fasteignafélag um verslunarrými í Kringlunni, þar á meðal búðirnar Joe Boxer, Dogma og Adidas búðina. „Leigusamningurinn gekk síðan bara aftur til Reita sem tóku hann yfir við gjaldþrotið,“ segir hann.

„Þegar skiptastjórinn leysir til sín búið kemst hann yfir réttarsáttina og fer þar með af stað og segist vilja fá ábyrgðina greidda jafnvel þótt vitað sé að félagið sé ekki gjaldfært. Þess vegna er óskað eftir gjaldþrotaskiptum,“ segir Guðmundur. „Þetta er bara hefndarráðstöfun hjá Birni Leifssyni,“ segir hann. Aðspurður hvað hann eigi við með því segir hann engan tilgang hafa verið með þessari ráðstöfun.

ÞS69 ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta þann 12. janúar 2010 en Laugar ehf. höfðu áður yfirtekið rekstur félagsins í september 2009. Var reksturinn var seldur á 25 milljónir króna. Þrotabú Þreks ehf. (ÞS69 ehf.) höfðaði síðar riftunarmál gegn Laug­um ehf., nú­ver­andi eig­anda, vegna sölunnar en málið var þó fellt niður með sam­komu­lagi milli málsaðila. 

Sportfitness gekkst í ábyrgð fyrir láni frá Straumi-Burðarás.
Sportfitness gekkst í ábyrgð fyrir láni frá Straumi-Burðarás. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK