Verðlag lækkaði um 0,52% í nóvember

Verðlag lækkaði um 0,52% í nóvember en spár höfðu gert …
Verðlag lækkaði um 0,52% í nóvember en spár höfðu gert ráð fyrir að það stæði í stað. Morgunblaðið/Skapti Hallgríms

Verðlag lækkaði um 0,52 prósent í nóvember en spár höfðu gert ráð fyrir það stæði í stað. Kemur mælingin því verulega óvart að sögn Greiningardeildar Arion Banka. 

Í markaðspunktum greiningardeildarinnar kemur fram að undanfarna þrjá mánuði hafi vísitala neysluverðs lækkað um 0,5% sem jafngildir 2,0% verðhjöðnun á ári. Vísitalan án húsnæðis hefur lækkað um 0,3% síðastliðið ár og er því lítill sem enginn verðbólguþrýstingur að frádregnum húsnæðisliðnum.

Áhrif á skuldabréfamarkað

Veruleg lækkun á vísitölu neysluverðs endurspeglast á skuldabréfamarkaði og hefur ávöxtunarkrafan á óverðtryggðum bréfum lækkað í morgun en krafan á verðtryggðum bréfum hækkað. Verðbólguálagið hefur því tekið kipp niður á við í kjölfarið enda virðist enginn verðbólguþrýstingur vera í kortunum um þessar mundir. Líkt og kom fram í síðustu fundargerð peningastefnunefndar byggist hjöðnun verðbólgunnar undanfarið á breiðum grundvelli og eru horfur á að hún verði undir markmiði Seðlabankans vel fram á næsta ár. Í raun má segja að ársverðbólga sé með lægsta móti um þessar mundir, sérstaklega ef horft er fram hjá húsnæðisliðnum. „Líkt og komið hefur fram áður hefur stöðugt gengi krónunnar, lækkandi hrávöruverð og lítil verðbólga í okkar helstu viðskiptalöndum átt töluverðan þátt í lækkun ársverðbólgunnar, en einnig hóflegar launahækkanir undanfarið ár,“ segir í markaðspunktunum. 

Í bráðabirgðaspá Greiningardeildarinnar er gert ráð fyrir lítilli verðbólgu næstu mánuði og að hún standi í 1,2% í febrúar á næsta ári. Gangi spáin eftir yrði febrúar þrettándi mánuðurinn í röð þar sem verðbólgan verður undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Jafnframt lítur út fyrir að verðbólgan verði undir markmiði Seðlabankans vel fram á næsta ár.

Arion banki.
Arion banki. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK