Staðfesta bann á „ósanngjarnri“ Samsung-auglýsingu

Skjáskot úr auglýsingu Tæknivara
Skjáskot úr auglýsingu Tæknivara Skjáskot

Áfrýjunarnefnd  neytendamála hefur staðfest þann úrskurð Neytendastofu frá því í fyrra að banna auglýsingu Tæknivara fyrir Samsung-snjallsíma vegna þess að hún sé ósanngjörn gagnvart keppinautum fyrirtækisins sem selja Apple-vörur.

Það var fyrirtækið Skakkiturninn ehf. sem flytur inn og selur Apple-vörur, þar á meðal Iphone-snjallsíma, sem kvartaði yfir auglýsingu Tæknivara „Sími sem skilur þig“ fyrir Samsung Galaxy S4-snjallsímann til Neytendastofu. Í auglýsingunni sést maður halda á epli eins og snjallsíma en af látbragði hans má ætla að „síminn“ virki ekki sem skyldi. Hann tekur hins vegar gleði sína á ný þegar hann er kominn með Galaxy S4-síma í höndina.

Neytendastofa kvað upp þann úrskurð í október í fyrra að auglýsingin bryti gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Var Tæknivörum bannað að birta auglýsinguna framar. Fyrirtækið kærði þá ákvörðun síðar til áfrýjunarnefndar neytendamála.

Í niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar er staðfest það álit Neytendastofu að auglýsingin teljist ósanngjörn gagnvart keppinautum Tæknivara og neytendum vegna framsetningar hennar. Hún fari því í bága við fyrrnefnd lög. Hún feli einnig í sér óréttmæta viðskiptahætti, brjóti í bága við góða viðskiptahætti gagnvart neytendum og sé líkleg til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda.

Þá telur áfrýjunarnefndin að veittar séu villandi upplýsingar í auglýsingunni sem séu til þess fallnar að hafa áhrif á eftirspurn vara. Því staðfestir nefndin úrskurð Neytendastofu.

„Það er gott að fá aðra staðfestingu á því að þessi auglýsing var ekki bara ólögleg, heldur líka blekkjandi, villandi og ósanngjörn gagnvart hinum almenna neytanda. Svona auglýsingar vilja Íslendingar ekki sjá og það hafa Neytendastofa og áfrýjunarnefnd neytendamála nú staðfest,“ segir Bjarni Ákason, framkvæmdastjóri Skakkaturns, umboðsaðila Apple á Íslandi í yfirlýsingu vegna niðurstöðunnar.

Hér fyrir neðan má sjá auglýsinguna umdeildu.

Óvænt athygli íslenskrar auglýsingar

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK