„Synd fyrir miðbæinn“

Skólavörðustígur 21
Skólavörðustígur 21 Þórður Arnar Þórðarson

„Ég myndi segja að það sé mikil synd fyrir miðbæinn að þessi flottu verslunarrými fari undir enn einn veitingastaðinn,“ segir Auður Gná Ingvarsdóttir, eigandi verslunarinnar Insula á Skólavörðustíg 21.

Mbl.is greindi frá því í gær að Sonja Lampa, eig­andi veit­ingastaðar­ins Krua Thai, hefði fest kaup á húsnæðinu þar sem hún hyggst opna Krua Thai á jarðhæðinni auk þess sem íbúðum á efri hæðum húss­ins verður mögu­lega breytt í gisti­heim­ili. 

Áhugi á innréttingunum

Auður er tiltölulega nýbúin að fá tilkynningu um þetta og vonast til þess að finna sambærilegt húsnæði undir Insulu. „Þessi tvö rými eru með fallegri verslunarrýmum miðbæjarins og það ýtti undir þá ákvörðun að koma hingað. Það gæti orðið flókið að finna eitthvað sambærilegt en auðvitað er það óskandi að svo verði,“ segir hún. Auður þarf hugsanlega að rýma húsnæðið í byrjun janúar og segir hún nýja eigendur hússins vonast til þess að rýmin verði tóm sem fyrst. „Ég er einnig að framleiða og hanna undir mínu merki og það er spurning hvort maður fari bara frekar að einbeita sér að því,“ segir hún. „En það væri líka synd að hætta núna.“

Auk þess sem Insula þarf að hverfa frá fyrir Krua Thai, verður veitingastaðnum einnig komið fyrir í rými Skyrtu, þar sem Fatabúðin var áður rekin. Eigendur Skyrtu héldu í upprunalegar innréttingar Fatabúðarinnar sem eru frá árinu 1947 er þeir opnuðu sína verslun og hafa að sögn Auðar sýnt því áhuga að kaupa innréttingarnar en húsnæði Skyrtu þarf einnig að rýma í byrjun janúarmánaðar.

Stofnandi Fatabúðarinnar byggði húsið

Fatabúðin var opnuð í húsinu árið 1927 þegar stofnað var útibú á Skólavörðustíg, en höfuðstöðvar verslunarinnar voru þá í Hafnarstræti 16. Til skamms tíma var verslunin því rekin á báðum stöðum.

Fyrsta hæð hússins að Skólavörðustíg 21a var byggð árið 1927 en ofan á húsið var byggt árið 1936. Það var Guðríður Árnadóttir Bramm sem lét byggja húsið en hún stofnaði Fatabúðina og var hún rekin í fjölskyldu hennar allt til 1955. Guðríður var þar að auki þekkt athafnakona og hafði áður rekið verslun á Ísafirði og lét meðal annars byggja stórhýsið Fell þar í bæ sem brann í stórum eldsvoða á fimmta áratugnum.

Frétt mbl.is: Krua Thai í stað Fatabúðarinnar

Auður Gná Ingvarsdóttir.
Auður Gná Ingvarsdóttir.
Eigendur Skyrtu héldu í upprunalegar innréttingar frá árinu 1947.
Eigendur Skyrtu héldu í upprunalegar innréttingar frá árinu 1947. Mynd af vefsíðu Skyrtu.is
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK