Helmingur kaupir jólagjafir á netinu

Talið er að Íslendingar eyði að meðaltali um 45 þúsund …
Talið er að Íslendingar eyði að meðaltali um 45 þúsund krónum í innkaup tengdum jólahaldinu. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Jólainnkaup á netinu hafa í auknum mæli tekið við af hinum hefðbundnu verslunarferðum og hafa bæði innlendar og erlendar netverslanir aukið hlutdeild sína á markaðnum. Raftæki og bækur eru meðal vinsælasta varningsins sem keypt er um netið.

Kannanir í Svíþjóð og Noregi sýna að um helmingur neytenda gerir jólainnkaupin að hluta til á netinu og telur Emil B. Karlsson, forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar, að hlutfallið sé svipað á Íslandi. „Þessu fylgja mikil þægindi fyrir neytendur og fólk er smám saman að uppgötva kostina við netverslun,“ segir hann. „Verslunin er að verða alþjóðlegri og síður svæðisbundin,“ segir Emil. Hægt er að bera saman vöruúrval, verð og gæði, allt
heima í stofu.

Notfæra sér kostina fremur en að sporna við þróuninni

Í skýrslu Rannsóknarsetursins um jólaverslun 2014 kemur fram að þau fyrirtæki sem sjá um pakkasendingar merki stöðugan vöxt og sjá framá mikla aukningu í sendingum vegna netverslunar fyrir þessi jól líkt og í fyrra. Emil segir kínverska netverslun hafa aukist mest, þó enn sé meira keypt frá Bandaríkjunum og Bretlandi. En jafnvel þótt hlutur erlendra netverslana sé að aukast hefur íslensk netverslun einnig sótt í sig veðrið. 

Aðspurður hvort það sé áhyggjuefni að verslunin sé að færast úr landi með þessum hætti telur Emil svo ekki vera. „Íslenskar netverslanir eru einnig farnar að selja úr landi í auknum mæli,“ segir hann. „Ég held að engum detti í hug að reyna að sporna við netverslun. Hún eykst bara og íslenskar verslanir ættu frekar að notfæra sér þessa kosti,“ segir hann og bætir við að sú þróun sé þegar hafin.

45.000 krónur í jólainnkaup

Þá segir hann einnig áhugavert að allir aldurshópar séu teknir að versla á netinu, en fyrir nokkrum árum einskorðaðist verslunarmátinn fremur við yngra fólk. Áherslumunur er þó í kaupunum á milli kynjanna þar sem konur kaupa meira af fatnaði á netinu en karlarnir eru frekar að spá í raftækjum.

Það er spá Rannsóknaseturs verslunarinnar að velta jólaverslunar verði nokkuð meiri en í fyrra og aukist að raunvirði um 4% frá fyrra ári samanborið við tæp 1,7% í fyrra. Talið er að velta í smásöluverslun í nóvember og desember verði um 84 milljarðar króna eða um 72 milljarðar án virðisaukaskatts. Þá má ætla að hver Íslendingur verji að meðaltali um 45.000 krónum til innkaupa sem rekja má til jólahaldsins, sem gera 180.000 krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu.

Íslendingar eru í auknum mæli farnir að kaupa jólagjafirnir á …
Íslendingar eru í auknum mæli farnir að kaupa jólagjafirnir á netinu í stað þess að rölta á milli búða. Morgunblaðið/Ómar
Það getur verið þægilegt að sleppa við ösina sem fylgir …
Það getur verið þægilegt að sleppa við ösina sem fylgir búðarrápi á jólunum. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK