Selur eignarhlut sinn í Valitor Holding

mbl.is/Kristinn

Landsbankinn hefur selt 38% eignarhlut sinn í Valitor Holding hf. (móðurfélagi Valitor hf.) á 3,6 milljarða kr. til Arion banka. Samkvæmt því er allt hlutafé Valitor verðlagt á 9,5 milljarða kr.

Þetta er gert í samræmi við sátt sem Landsbankinn hefur gert vegna rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á samkeppnishömlum á greiðslukortamarkaði. Samkeppniseftirlitið hefur lagt sektir á Landsbankann, Íslandsbanka, Arion banka, Borgun og Valitor sem samanlagt nema 1.620 milljónum króna.

Fram kemur á vef Landsbankans, að til viðbótar muni Arion banki greiða Landsbankanum viðbótargreiðslu fái Valitor greiðslur frá Visa Europe vegna valréttar sem í gildi er milli Visa Europe og Visa Inc. í Bandaríkjunum.

Væntingar eru um að viðbótargreiðslan gæti numið verulegum hluta af verðmæti hlutafjár Landsbankans í Valitor Holding hf. komi til hennar. Óvissa er um hver endanleg fjárhæð viðbótargreiðslunnar gæti orðið og hvenær hún yrði greidd, en valrétturinn er ótímabundinn. Það skiptir Landsbankann höfuðmáli að Arion banki er reiðbúinn að tryggja þessa viðbótarhagsmuni Landsbankans til langs tíma. Arion banki er meirihlutaeigandi í Valitor Holding hf. og hyggst vera það áfram. Hagsmunir Landsbankans eru því mun betur tryggðir en þeir væru með samkomulagi við fjárfesta sem keypt hefðu minnihluta í félaginu. Af þessari ástæðu var það talið ganga gegn hagsmunum Landsbankans að bjóða hlutinn til sölu á almennum markaði,“ segir í tilkynningu á vef Landsbankans. 

Rökréttur samningur

Þá kemur fram, að Landsbankinn hafi undirritað samning við Visa Europe sem feli í sér m.a. milliliðalaust samband við fyrirtækið.

„Þessi samningur mun einfalda kortarekstur bankans og skapa forsendur fyrir auknu sjálfstæði í kortaútgáfu, einfalda útboð á þjónustu sem tengist kortamarkaði, hvort heldur er innanlands eða erlendis og auðvelda Landsbankanum að innleiða nýjungar á vegum Visa. Samningurinn mun einnig gera bankanum mögulegt að stýra kortaþjónustu og kortaframboði betur en verið hefur og aðgangur að ráðgjöfum Visa Europe mun færa bankann nær vöruþróun en nokkru sinni fyrr. Með þessu er tryggt að Landsbankinn geti á hverjum tíma boðið viðskiptavinum sínum bestu mögulegu vörur sem VISA býður. Þessi samningur er rökréttur fyrir Landsbankann þar sem nálega 98% viðskiptavina bankans nota VISA greiðslukort,“ segir bankinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK