Sparar neytendum 400 milljónir

Kortafyrirtækin Borgun og Valitor gengust við því með sátt við …
Kortafyrirtækin Borgun og Valitor gengust við því með sátt við Samkeppniseftirlitið að lækka milligjöld af öllum kortafærslum og að sett yrði hámark á slíkar þóknanir. AFP

Hámark á milligjöld kortaútgefenda gæti sparað neytendum allt að 400 milljónir króna á ári. Þetta má sjá þegar tölur yfir kortaveltu eru skoðaðar og bornar saman við milligjöld kortafyrirtækjanna og boðaða lækkun samkvæmt sátt við Samkeppniseftirlitið.

Hámark á millgjald

Í morgun var tilkynnt að kortafyrirtækin ásamt stóru viðskiptabönkunum hefðu samþykkt að greiða 1.620 milljónir í sektir vegna samkeppnisbrota á greiðslukortamarkaði. Meðal þess sem kveðið var á um í sáttinni var að hámark skyldi sett á svokallað milligjald. Það er sú þóknun sem söluaðilar greiða kortaútgefendum (Valitor og Borgun) fyrir alla kortaveltu. Lækkunin ætti því að skila sér til söluaðila og svo á endanum til neytenda.

Í sáttinni sem kynnt var í morgun kemur fram að talið hafi verið nauðsynlegt að mæla fyrir um lækkun milligjalda í ljósi markaðsráðandi stöðu VISA og MasterCard vörumerkjanna hér á landi. Þannig skal hámarksmilligjald vegna debetkortafærslna ekki fara yfir 0,2% meðan hámark kreditkortafærslna verður 0,6%. Á því tímabili sem rannsókn eftirlitsins náði til var algeng þóknun 0,75 – 0,80% á kreditkortum og 0,35% á debetkortum.

Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor segir að nú þegar sé búið að lækka milligjöld vegna debetkorta niður í hámark Samkeppniseftirlitsins, en það hafi verið gert fyrr á árinu. Þá séu milligjöld kreditkorta eitthvað lægri í mörgum tilfellum. Hann gat þó ekki gefið upp nákvæma tölu yfir meðaltal gjaldsins, hvorki fyrir debet- eða kreditkort.

Þegar reikna á út mögulega þóknanalækkun þarf að hafa í huga að hámarkið á aðeins við um greiðslukort heimila, en ekki fyrirtækjakort. Þá á þetta ekki við um kortaveltu erlendis eða veltu erlendra korta hér á landi.

Um háar upphæðir að ræða á hverju ári

Í fyrra var debetkortavelta hér á landi 388 milljarðar og kreditkortavelta 315 milljarðar. Hlutfall greiðslukorta heimila er um 88%, eða um 341 milljarður og 277 milljarðar. Ef gert er ráð fyrir að lækkun debetkortakostnaðarins sé þegar frágengin er það lækkun kreditkortakostnaðar sem ætti samkvæmt þessu að koma til framkvæmdar á næstu mánuðum.

Miðað við 0,75% gjald af öllum færslum var heildarkostnaður í fyrra um 2,08 milljarðar í fyrra fyrir heimilin, en með nýju hámarki upp á 0,60% gæti sá kostnaður farið niður í 1,66 milljarða. Það er sparnaður upp á rúmlega 400 milljónir, sem ætti að geta komið til lækkunar vöruverðs. Upphæðin gæti þó verið eitthvað lægri sé það rétt hjá Viðari að gjöldin hafi lækkað í mörgum tilfellum og séu ekki lengur 0,75-0,80%. Í samtali við mbl.is sagði hann þó að gjöldin væru enn nokkuð hærri en 0,60%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK