Verðlækkun skilað sér hratt og vel

Jón Ólafur Halldórsson forstjóri Olíuverslunar Íslands.
Jón Ólafur Halldórsson forstjóri Olíuverslunar Íslands. Ljósmynd/Olís

Varasamt er að taka einfalt margfeldi af skráðu verði á heimsmarkaði og gengi Bandaríkjadals á hverjum tíma þegar skoðuð er lækkun á eldsneytisverði. Þetta segir forstjóri Olíuverslunar Íslands vegna orða framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, hefur meðal annars sagt að hægt sé að lækka dísilolíu meira. Í tilkynningu frá Jóni Ólafi Halldórssyni, forstjóra Olíuverslunar Íslands, segir að taka verði tillit til fleiri breyta en aðeins lækkunar á heimsmarkaðsverði, t.d dreifingarkostnaði, afsláttum og birgðum. „Vert er að hafa í huga að álagning á eldsneyti er frjáls eins og í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Þegar borið er saman eldsneytisverð á Íslandi og í nálægum löndum s.s. Danmörku, kemur í ljós að það er ekki mikill munur á verðinu. Í dag er algengt verð í sjálfsafgreiðslu hjá Olís 212,90 ísk/l á meðan verð í Kaupmannahöfn er 10,10 dkr/l sem leggur sig á 210 ísk/l (gengi 20,8 ísk/dkr). Ennfremur skal geta þess að verð á eldsneyti hjá Olís og ÓB hefur lækkað um tæpar 40 kr/l á undanförnum vikum og er það okkar mat að verðlækkun á eldsneyti hafi skilað sér hratt og öllu hagkerfinu hér til góða.“

Jón Ólafur bendir jafnframt á að 53% af bensínverði á Íslandi sé til komið vegna skattlagningar eða um 113 kr/l. „Ísland er eyja í Norður-Atlantshafi og aðflutningar til landsins eru hlutfallslega dýrari en fyrir þær þjóðir sem búa á meginlandi Evrópu, og jafnvel í Skandinavíu sem við berum okkur oftast saman við. Til viðbótar þessu þá erum við fámenn þjóð í tiltölulega strjálbýlu landi þar sem eldsneytisdreifing er mjög dýr, í það minnsta dýrari en í þéttbýlum löndum eins og Danmörku. Þjónustustig við bíleigendur hér á landi er mjög hátt. Hér er þéttleiki bensínstöðva mikill eins og margoft hefur komið fram á undanförnum árum og eldsneytisverð er það sama um allt land. Verðsamkeppni er mikil hér á landi og hart barist um hylli viðskiptavina eins og tilboð og tryggðakerfi sýna vel fram á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK