Draga ekki úr olíuframleiðslu

Ali al-Naimi, olíumálaráðherra Sádi Arabíu, segir að Sádi-Arabía og Kuwait muni ekki draga úr framleiðslu á olíu þó að olíuríki sem standa utan OPEC muni gera það.

„Nei, ... ég held að það sé of seint að gera það núna,“ sagði Ali al-Naimi þegar hann var spurður hvort Sádi Arabía ætlaði að draga úr framleiðslu ef aðrar þjóðir drægju úr olíuframleiðslu.

„Ef þau (ríkin utan OPEC) vilja draga úr framleiðslu er þeim velkomið að gera það. Við munum ekki gera það. Það er alveg víst að Sádi Arabía mun ekki gera það,“ sagði olíumálaráðherrann á ráðstefnu olíuríkja sem haldin er í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Ali al-Naimi sagði í upphafi fundarins að hann væri bjartsýnn á að heimsmarkaðsverð á olíu muni hækka á næstunni. Hann sakaði olíuríkin sem standa utan OPEC um skort á samstarfsvilja. Það ætti þátt í að olíuverð hafi lækkað svona mikið.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur haldið áfram að lækka og er tunnan af Brent Norðursjávarolíu komin niður í sextíu Bandaríkjadali. Hefur olíuverð ekki verið jafn lágt í fimm ár eða síðan árið 2009.

Samkvæmt fréttum er lækkunin í morgun rakin til upplýsinga úr hagkerfi Kína en þar hefur framleiðsla dregist saman á sama tíma og eftirspurn eftir olíu dregst saman. Eins er framboð af olíu meira en eftirspurn þessa dagana.

Í morgun stóð tunnan af Brent olíu til afhendingar í janúar í 56,5 Bandaríkjadölum og hefur ekki farið niður fyrir 60 dali síðan á fyrri hluta ársins 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK