Erfitt að keppa við netverslanir um sölu Dróna

Dróni á flugi.
Dróni á flugi. AFP

Drón­ar eru of­ar­lega á óskalista margra fyr­ir þessi jól­in, og hefur því jafnvel verið haldið fram að þeir séu ein vinsælasta jólagjöfin í Bandaríkjunum í ár. Vinsældir þessara fljúgandi myndavéla eru þó einnig miklar á Íslandi, en samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti er töluverður fjöldi sendur hingað til lands í hverjum mánuði.

Hobby búðin í Glæsibæ er ein fárra verslana hér á landi sem býður upp á dróna í vöruúrvali sínu. Stefán Þór, rekstraraðili verslunarinnar, segir netverslun þó skekkja markaðsstöðu gríðarlega, sem geri það að verkum að sala á drónunum er ekki eins mikil og hann hafði vonað. 

Ekki mikil sala á drónum í verslunum hérlendis

„Ég get ekki sagt að þetta sé neitt gríðarlega vinsælt. Það er ákveðinn áhugi sem slíkur en ekki eins og ég bjóst við,“ segir hann. „Við erum búin að vera með stórar auglýsingar og höfum náð til fjölda fólks en aðsóknin er engin í samanburði við það. Ég held að ástæðan sé sú að fólk er að panta þetta á netinu að mestu leyti.“

Stefán segir þrjár gerðir dróna til sölu í búðinni, þann minnsta á stærð við eldspítustokk og þann stærsta töluvert stærri. Þeir komi allir með innbyggðum myndavélum og kosti á bilinu 6.990 til 29.990 krónur.

Netverslanir gera verslunum mikinn grikk

„Við tókum ekki mikið inn af þessu því við erum hræddir við þetta. Við getum ekki setið inni með stóran lager og horft á fólk kaupa þetta svo bara á netinu,“ segir hann. „Netverslanir eins og Aliexpress, þar sem fólk er mikið að kaupa þessa hluti, eru að gera verslunum hér á Íslandi mikinn grikk.“

Þá segir hann ómögulegt að keppa við verð netverslananna, þar sem milliliðalaus viðskipti eigi sér þar stað sem séu alltaf ódýrari. „En það þrengir alltaf meira að okkur, því fleiri sem panta þarna úti. Verslanir hér á landi enda bara með því að loka því þær þola þetta ekki til lengri tíma.“

Hafa ekki náð fullum styrkleika á Íslandi

Gylfi Gylfason, eigandi Símabæjar, segir dróna vera að koma mikið inn þessa stundina, en þeir hafi ekki náð fullum styrkleika ennþá. „Ég hef trú á því að þetta eigi eftir að verða mjög vinsælt. En menn hafa verið að kaupa þetta mikið á netinu og það gerir það vissulega að verkum að þetta er erfið söluvara,“ segir hann.

Þá segist hann hafa keypt inn nokkrar týpur í tilraunaskyni, og um þessar mundir sé ljósmyndari að prufukeyra búnaðinn. „Við erum ekki búin að ákveða vörumerki í þessu en við erum að fara af stað með þetta. Þetta verður hluti af prógramminu hjá okkur á næsta ári.“

Gæti orðið umdeild vara

Þá segist hann viss um að drónarnir verði umdeildir þegar þeir fari að verða vinsælli hér á landi. „Ég veit til dæmis um einn sem steypti drónanum sínum niður um daginn með myndavél og linsum og öllu. Þar var milljón króna pakki sem endaði úti í fjöru.“

Jafnframt bendir hann á myndband sem náðist af manni steypa drónanum sínum niður í Jökulsárlón. „Hann varð rafmagnslaus yfir lóninu og þar með var hundrað þúsund kall farinn. Þegar fólk fer svo að fljúga þessu í hausinn á öðru fólki þá verður þetta umdeilt og kemst örugglega á skrið,“ segir hann hlæjandi að lokum.

Hér fyrir neðan má sjá myndband, tekið með dróna, af Íslandi.

Frétt mbl.is: Margir vilja dróna í jólagjöf

Frétt mbl.is: Drónar flækjast fyrir flugi

Dróni myndar skíðakappa á stökki.
Dróni myndar skíðakappa á stökki. AFP
Drónar verða sífellt vinsælli.
Drónar verða sífellt vinsælli. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK