Kjarakaup gerð í frumskóginum

Amazon er eitt af stærstu fyrirtækjum heims og stofnandi þess, …
Amazon er eitt af stærstu fyrirtækjum heims og stofnandi þess, Jeff Bezos, er einn af ríkustu mönnum í heimi. Fyrirtækið lýsti sig ábyrgðarlaust gagnvart seljendum enda væri hugbúnaðurinn sem brást á vegum þriðja aðila. AFP

Þeir sem leggja það í vana sinn að kaupa bækur eða hluti í gegnum vefrisann Amazon geta öðru hverju ekki annað en fallið í stafi gagnvart skilvirkni og nákvæmni síðunnar. Oftar en ekki er þar jafnframt að finna besta verðið og tilboð á nýjum bókum eru iðulega allt að því glæpsamlega hagstæð. Hins vegar kom upp sjaldgæf tæknileg villa á síðunni í liðinni viku sem varð til þess að þeir sem voru inni á síðunni á því augnabliki gátu gert ótrúleg kaup. Þetta ástand varði í um klukkustund og afleiðingarnar eru hræðilegar fyrir marga seljendur.

Verð á þúsundum hluta féll niður í 1 p., um tvær íslenskar krónur, og viðskiptavinir sem voru vel á verði létu ekki segja sér það tvisvar og hófu magnkaup í umtalsverðum mæli. Fyrir vikið biðu mörg lítil fyrirtæki sem selja vörur sínar á Amazon töluvert fjárhagslegt tjón og þeim hefur jafnframt verið tilkynnt að vefrisinn hyggist ekki bæta þeim það tjón. Seljendum var tilkynnt í tölvupósti að vildu þeir léta réttar síns yrðu þeir að hafa samband við þann þriðja aðila sem sér um hugbúnaðinn sem brást.

Villan lýsti sér þannig að hugbúnaður sem utanaðkomandi seljendur beita til þess að tryggja að þeir bjóði upp á lægsta verðið á markaði gekk allt í einu af göflunum og snarlækkaði verð á ýmsu niður í sama og ekkert. „Amazon er í tómu rugli,“ tísti einn athugull notandi. „Rúmdýna 1 p., heyrnartól 1 p., rafhlöður, föt, tölvuleikir, allt 1 p. Einhver brást illilega.“

Martin Le Corre, sem selur leikföng og tölvuleiki frá vöruhúsi sínu í gegnum Amazon, sagði í samtali við The Guardian að villan í tölvukerfinu hefði kostað hann um 100.000 pund eða í kringum 20 milljónir króna.

„Síminn hringdi og samkeppnisaðili okkar var hinum megin á línunni og spurði hvort við áttuðum okkur á því að við værum að selja hlutina okkar á eitt penní. Eftir klukkustund var búið að leggja inn 1.600 pantanir til okkar. Fólk var kannski að kaupa 10, 50 eða 100 eintök af sama hlutnum.“ Þegar hann tók verslun sína af vefsíðu Amazon hafði verið tilkynnt að varningur fyrir um 6 milljónir hefði þegar verið sendur af stað frá Amazon. Það þýðir að ekki er hægt að hætta við pöntunina eða rifta samningnum.

Fyrirtækið sem sér um hugbúnaðinn sem brást nefnist RepricerExpress. Það hefur heldur ekki boðist til að bæta seljendum tjónið að einhverju leyti en sendi frá sér tilkynningu þar sem fram kom að forsvarsmenn þess væru miður sín vegna þeirra óþæginda sem bilunin olli viðskiptavinum fyrirtækisins.

Þeir fjölmörgu seljendur sem lentu illa í þessu óhappi hafa lýst yfir sameiginlegri óánægju sinni gagnvart viðbrögðum vefrisans og blöskrar sú staðreynd að eitt stærsta fyrirtæki heims vilji ekkert gera til þess að koma til móts við þá.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK