Ómenntuð húsmóðir hefur minna vald

Konur taka ríkari þátt í fjármálaákvörðunum en karlar eru þó …
Konur taka ríkari þátt í fjármálaákvörðunum en karlar eru þó ennþá meira áberandi. mbl.is/Golli

Konur taka ríkari þátt í mikilvægum fjármálaákvörðunum í dag en áður þó að karlar séu ennþá meira áberandi. „Sumir segja að konur taki að mestu leyti ákvarðanir fyrir heimilið en það er bara þegar kemur að litlum ákvörðunum, eins og hvað skuli vera í matinn. Þetta eru í raun ekki mikilvægar ákvarðanir, heldur vinna. Ákvörðun um matseld morgundagsins hefur ekki áhrif á afkomu heimilisins eftir tuttugu ár. Hins vegar getur ákvörðun um fjárfestingu ævisparnaðarins skipt sköpum.“

Þetta sagði Arna Varðardóttir, loktor í hagfræði við Copenhagen Business School, á kynningu á niðurstöðu doktorsritgerðar sinnar og Tomas Thörnqvist, í Seðlabankanum á fimmtudag.

Vald ræðst af möguleikum utan hjónabands

Arna komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðunarvald, það er, hversu mikið vald einstaklingur hefur um ákvörðunartöku innan heimilis, ráðist af því hvaða möguleika hann hefur utan hjónabandsins. ,,Þessi niðurstaða sýnir að heimilin eru ekki bara svartir kassar. Það er eitthvað sem gerist innan kassanna. Það er mikilvægt fyrir stjórnvöld, háskólasamfélagið og fleiri, að skilja hvað gerist innan þessara kassa og hvernig fjármálaákvarðanir eru teknar,“ sagði Arna.

Hún benti á að stefnubreytingar hins opinbera gætu haft áhrif á hlutfallslegt ákvörðunarvald hjóna og því væri mikilvægt að hafa í huga að skoðanir þeirra væru mismunandi. Arna sagði máli skipta, í þessu samhengi, hversu trúverðug hótun um að fara út úr hjónabandi væri, ef öðru hjóna mislíkar ákvörðun. ,,Niðurstöðurnar ýta enn frekar undir mikilvægi þess fyrir alla að mennta sig og geta staðið á eigin fótum.“

Fá trúverðugleika á vinnumarkaðnum

Þá tók hún dæmi til að útskýra þetta nánar. „Vera kann að menntuð kona vinni heima en vegna þess að hún hefur möguleika á því að vinna utan heimilis, fær hún ákveðinn trúverðugleika. Hún getur staðið á eigin fótum, því hún hefur menntun og atvinnumöguleika. Af þeim sökum fær hún að taka meiri þátt í fjármálaákvörðunum heimilisins.“

Þá hafi ómenntuð húsmóðir minna að segja um fjármálaákvarðanir heimilisins en útivinnandi kona.

Hrunið jók áhrif kvenna

Aðspurð hvort fjármálakreppan kunni að hafa haft áhrif á ákvörðunarvald kynjanna, svaraði hún: „Hlutfallslegir atvinnumöguleikar hjóna hafa áhrif á vægi hvors hjóna um sig í ákvörðunarferli heimilisins. Við hrunið á Íslandi urðu karllægar greinar á borð við fjármálagreinar fyrir þyngra höggi en aðrar. Það hafði þau áhrif að atvinnumöguleikar karla skertust almennt meira í hruninu.

Þar af leiðandi kann ákvörðunarvald karla innan heimila að hafa skerst. Mínar niðurstöður segja, að við slíkar aðstæður muni áhrif kvenna á fjármálaákvarðanir heimilanna aukast.“

Rannsókn Örnu var allítarleg en hún skoðaði skattagögn allrar sænsku þjóðarinnar í sjö ár. Úrtakið var þannig tíu milljónir manna. „Gögnin innihalda mjög ítarlegar upplýsingar um fjármálaákvarðanir þeirra og ég gat séð allar fjárfestingar þeirra, sparnað, eignir og margt fleira.“ Hún skoðaði fjárfestingar einhleypra karla og kvenna, sem eru mjög ólíkar og bar þær saman við fjárfestingar hjóna.

Arna telur enga ástæðu til að ætla að niðurstaðan yrði öðruvísi, yrði hún framkvæmd á Íslandi.

Arna Varðardóttir við kynningu á niðurstöðum ritgerðar sinnar í Seðlabanka …
Arna Varðardóttir við kynningu á niðurstöðum ritgerðar sinnar í Seðlabanka Íslands í gær. Þórður Arnar Þórðarson
Frá fundinum.
Frá fundinum. Þórður Arnar Þórðarson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK