Er jólahugurinn einhvers virði?

Þiggjandinn metur gjöfina oftast ekki eins mikils og gefandinn.
Þiggjandinn metur gjöfina oftast ekki eins mikils og gefandinn. Kristinn Ingvarsson

Oft er sagt að það sé hugurinn sem gildir hvað jólagjafir varðar. Hins vegar er ljóst að þiggjandinn metur gjöfina sjaldnast jafnmikils og gjöfin kostaði gefandann.

Mismunurinn á virði jólagjafa er nefndur „allratap“ og áætla má að um 10 til 30 prósent af kaupvirði jólagjafa endi þar. Hugtakið er runnið frá bandarískum prófessor við Yale, Joel Waldfogel, en hann spurði nemendur sína annars vegar að því hversu mikið þiggjandinn væri sjálfur tilbúinn að greiða fyrir gjöfina og hins vegar hversu mikið hann þyrfti að fá greitt fyrir að láta gjöfina af hendi. Nefndu flestir hærri tölu í síðarnefnda tilvikinu.

Mesta tapið vegna gjafa frá ömmu og afa

Þetta kemur fram í markaðspunktum Greiningardeildar Arion banka. Allratapið er yfirleitt mest vegna gjafa frá ömmum og öfum, frænkum og frændum eða þeim sem eru langt frá þiggjandanum félagslega eða í aldri. Gjafir frá foreldrum eða mökum eru aftur á móti mun líklegri til að hitta í mark, enda líklegt að þeir þekki viðkomandi, smekk hans og þarfir betur.

Reiknað er með að heildarvelta vegna jólaverslunar verði um 14,7 milljarðar í ár, þar af 6,4 milljarðar vegna dagvöru en 8,3 milljarðar vegna sérvöru. Ef gert er ráð fyrir að sérvaran sé öll vegna jólagjafa og að dagvaran sé matvara má áætlað að allratap vegna jólagjafa á Íslandi í ár, eða áætlaður kostnaður við það að sýna okkar nánustu fram á hlýju og væntumþykju, verði á bilinu 0,8 til 2,5 milljarðar króna. „Það er ekki furða að hagfræðin séu kölluð hin döpru vísindi,“ segir greiningardeildin.

Reiðufjárgjafir ekki alltaf viðeigandi

Samkvæmt hagfræðinni veitir reiðufé besta notagildið í krónum talið miðað við hvað gefandinn þurfti að leggja út fyrir. „En hví gefur fólk þá síður reiðufé í gjafir?“ spyr greiningardeildin. Er í fyrsta lagi talið að gefandinn sé að reyna vekja upp tilfinningaleg viðbrögð þar sem „fjárhæðir á bankabók vekja síður upp tilfinningaleg viðbrögð - viðtakandinn hugsar líklega ekki jafnhlýlega til peningaseðils og bróderaða púðans frá Dídí frænku... og þó,“ segir greiningardeildin. Í öðru lagi er þá nefnt að samfélagið hafi ákveðið að reiðufjárgjafir séu hreinlega ekki alltaf viðeigandi, til dæmis í tilfelli maka. 

Þá segir að gjafir geti þó verið ákveðið tækifæri fyrir fólk að sýna væntumþykju með því að gefa merki um það að tekinn hafi verið tími sérstaklega í að hugsa vel og vandlega um að velja eitthvað með þiggjandann einan í huga. „Að rækta sambönd á þennan hátt er eitthvað sem sjaldnast er tekið með inn í útreikninga.“

Gjafir geta verið ákveðið tækifæri fyrir fólk að sýna væntumþykju
Gjafir geta verið ákveðið tækifæri fyrir fólk að sýna væntumþykju mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK