Tveir ósammála seðlabankastjóra

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands Árni Sæberg

Tveir nefndarmenn í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands greiddu atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra, Más Guðmundssonar, um að lækka stýrivexti um 0,5 prósentur. Vildu þeir lækka vexti um 0,25 prósentur, að því er segir í fundargerð peningastefnunefndar sem birt var á aðfangadag. Þrír nefndarmenn greiddu atkvæði með tillögu seðlabankastjórans.

Voru nefndarmenn sammála um að þrátt fyrir lækkun nafnvaxta í nóvember væru raunvextir nú hærri en staða hagsveiflunnar og nærhorfur gæfu tilefni til. Með svipuðum rökum og komu fram á síðasta fundi töldu nefndarmenn forsendur fyrir að draga hluta þeirrar raunvaxtahækkunar til baka og lækka vexti.

Að mati nefndarinnar voru bæði rök fyrir að lækka vexti um 0,25 og 0,5 prósentur. Umræðan um þessa tvo kosti snerist að nokkru leyti um mat á horfum á nýju ári og í hvaða mæli aðhaldsstig peningastefnunnar um þessar mundir ætti að endurspegla hættuna á að kjarasamningar á nýju ári færu úr böndunum.

Helstu rökin fyrir því að taka stærra skref voru að ella yrði aðhaldsstig peningastefnunnar meira en stefnt var að með vaxtalækkuninni í nóvember án þess að það hefði stuðning í nýjum vísbendingum um eftirspurn, mælingum á verðbólguvæntingum eða í nýlegri verðbólguþróun.

Þrátt fyrir slíka lækkun myndi vaxtastigið áfram endurspegla áhættuna tengda vinnumarkaði í einhverjum mæli. Í þessu sambandi skipti máli eðli þeirrar ólgu sem væri á vinnumarkaði. Ekki væri að sjá að almenn umframeftirspurn eftir vinnuafli væri enn sem komið er helsta undirrót hennar. Fremur væri um að ræða átök um hlutfallslegar launabreytingar sem gætu átt sér stað við mismunandi verðbólgustig. Viðbúnaðurinn við hættunni á því að kjarasamningar fari úr böndum og ógni verðbólgumarkmiðinu ætti því á þessu stigi aðallega að vera sá að útskýra vel að slík þróun myndi kalla á vaxtahækkanir. Þá yrði að líta til þess að líklegt væri að verðbólga minnkaði frekar á næstunni og það þyrfti að taka með í matið á þróun taumhalds peningastefnunnar fram að næsta fundi nefndarinnar.

Helstu rök fyrir því að taka minna skref voru þau að litið lengra fram á veginn væri gert ráð fyrir að verðbólga ykist á ný vegna verðbólguþrýstings frá vinnumarkaði og minnkandi slaka í þjóðarbúskapnum. Einnig var nefnt að þótt núna væri loksins að myndast tækifæri til að lækka vexti þar sem verðbólguvæntingar væru komnar í markmið, væri tíminn frá því að það gerðist skammur og því ekki fullreynt að þær hefðu trausta kjölfestu í markmiðinu. Hættan væri því sú að verðbólga ykist hratt á ný þegar áhrifa þeirra þátta sem hafa togað hana niður gætir ekki lengur. Rétt væri því að bíða með stærri skref þar til að gerð kjarasamninga helstu stéttarfélaga væri lokið. Einnig var bent á að flestar vísbendingar um innlenda eftirspurn gæfu mun meiri vöxt til kynna en ráða mætti af þjóðhagsreikningum.

Einnig væri óvíst hvort áhrif lægra eldsneytisverðs, sem tímabundið stuðli að hjöðnun verðbólgu, yrðu langvarandi og órói á vinnumarkaði benti til þess að töluverð hætta væri enn á því að verðbólga færi á ný yfir markmið. Því væri æskilegt að lækka vexti í smáum skrefum uns aðstæður skýrðust og ólíklegt væri í ljósi vísbendinga um þróttmikinn vöxt eftirspurnar að það ylli skaða þótt taumhaldið yrði tímabundið þéttara en að var stefnt í nóvember, segir í fundargerð peningastefnunefndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK