Sameinast undir heitinu Ríkiseignir

mbl.is/Ernir

Jarðaumsýsla fjármála- og efnahagsráðuneytis og fasteignaumsýsla Fasteigna ríkissjóðs sameinast undir heiti Ríkiseigna sem tekur til starfa þann 1. mars en sameiningunni er ætlað að stuðla að hagkvæmari ríkisrekstri.

Í frétt fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur fram að unnið hafi  verið að sameiningunni með hliðsjón af þeirri góðu raun sem gefist hefur af því að fela Fasteignum ríkissjóðs daglega umsýslu  og viðhald hefðbundinna húseigna ríkisins. Með samsvarandi breytingu á umsýslu jarðeigna ríkisins verða stigin frekari skref í framfaraátt  í þessum efnum.

Með sameiningunni  færast dagleg verkefni sem tengjast jarð- og fasteignum ríkissjóðs á einn stað. Fyrirséð er talið að hagræðing felist í því að stofnuninni gefst færi á að bæta árangur á sviði skráningar og umsýslu húseigna, jarðeigna og auðlinda á ríkisjörðum. Ríkiseignir munu sinna útleigu, viðhaldi og rekstri fasteigna í eigu ríkissjóðs, umsýslu og skráningu fasteigna og jarðrænna auðlinda ríkisins, ásamt daglegri umsýslu jarðeigna í eigu ríkissjóðs, sjá um ábúðarmál og hafa umsjón með leigusamningum, innheimtu jarðarafgjalda og leigugreiðslna, auk þess að sinna samskiptum við leigutaka, ábúendur, sveitarfélög og aðra opinbera aðila.

Snævar Guðmundsson verður framkvæmdastjóri

Eignarráð í málaflokknum  verða áfram á hendi fjármála- og efnahagsráðuneytis. Í því felst að ráðuneytið tekur hér eftir sem áður allar stærri ákvarðanir og fer með almenna stefnumörkun í málaflokknum sem miðar fyrst og fremst að því að draga úr eignarhaldi ríkisins á húseignum og jörðum.  

Ríkiseignir verða með aðsetur í Borgartúni 7 í Reykjavík. Sextán störf verða í sameinaðri stofnun. Þar af færast fimm störf úr fjármála- og efnahagsráðuneyti og ellefu störf frá Fasteignum ríkissjóðs.  Framkvæmdastjóri verður Snævar Guðmundsson sem verið hefur framkvæmdastjóri Fasteigna ríkissjóðs.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK