Skapa 15 heilsársstörf

Friðrik Friðriksson, formaður stjórnar Matís, Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, og …
Friðrik Friðriksson, formaður stjórnar Matís, Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, og Einar Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins, f.h. Marigot.

Fulltrúar Stykkishólmsbæjar, Marigot, eiganda Íslenska kalþörungafélagsins á Bíldudal, og Matís skrifuðu í dag undir samkomulag sem hefur að markmiði að samþætta samstarf milli þeirra í tengslum við nýtt verkefni sem er í undirbúningi.

Verkefnið lýtur að aukinni virðissköpun með frekari nýtingu stórþörunga við Breiðafjörð í nýju iðnfyrirtæki, Deltagen Iceland ehf., sem áætlar að reisa verksmiðju í Stykkishólmi. Gangi þær áætlanir eftir má gera ráð fyrir að starfsemi Deltagen Iceland með 15 nýjum heilsársstörfum hefjist á síðari hluta árs 2016.

Eins og greint var frá í síðustu viku hefur Marigot keypt 60% hlut í vinnsluhluta starfsemi nýsköpunarfyrirtækisins Marinox ehf. sem var alfarið í eigu Matís og tveggja lykilstjórnenda þar. Um er að ræða þann hluta fyrirtækisins sem heldur utan um rannsóknir og vinnslu verðmætra hráefna úr hafinu, þang og þara.

Sjálfbær þróun að leiðarljósi

Í samkomulaginu er tekið fram að ávallt verði gætt að varúðarsjónarmiðum við sérhverja framkvæmd sem fyrirhuguð starfsemi mun krefjast, enda eru þau grundvöllur sjálfbærrar þróunar á nýtingu lífrænna auðlinda. Megináhersla verður lögð á vísindalega nálgun við nýtingu auðlindarinnar með það að markmiði að fullnýta hráefnið með sem minnstum áhrifum á umhverfið samhliða sem mestum svæðisbundnum efnahagslegum ávinningi.

„Með stofnun Deltagen Iceland horfir Marigot til mögulegs framtíðarvaxtar í starfsemi sinni á Íslandi og gangi þessar áætlanir eftir verður verksmiðjan í Stykkishólmi reist gagngert með markmið starfseminnar í huga,“ er haft eftir Sveini Ólafssyni, framkvæmdastjóra Íslenska kalkþörungafélagsins og fulltrúi Marigot hér á landi, í tilkynningu. 

„Miðað við áætlanir myndi verksmiðjan sjálf skapa 15 ársverk undir fullum afköstum auk starfa við þangslátt og söfnun, þróunar- og tæknivinnu auk annarra afleiddra starfa sem eru okkur í Stykkishólmi mikilvæg búbót í frekari atvinnuuppbyggingu,“ er þá haft eftir Sturlu Böðvarssyni, bæjarstjóra í Stykkishólmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK