RARIK hagnast um 2,7 milljarða

Kristján Kristjánsson

Hagnaður RARIK nam 2,7 milljörðum króna á árinu 2014 og var töluvert umfram það sem gert var ráð fyrir í áætlunum. Hækkun frá árinu 2013 var tæp 37% en þá var hagnaður ársins um 1,9 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir að hagnaður verði minni á næsta ári.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 4,7 milljarðar króna eða 37,7% af veltu tímabilsins, samanborið við 36,5% á árinu 2013. Handbært fé frá rekstri var 3,8 milljarðar króna. Rekstrartekjur hækkuðu um rúm 6% frá árinu 2013 og voru 12,5 milljarðar króna og rekstrargjöld hækkuðu á milli ára um tæp 4,5% og voru 9,5 milljarðar króna.

Fjárfestingar fyrir 2,5 milljarða

Áhrif Landsnets, sem er hlutdeildarfélag RARIK, á afkomu ársins voru jákvæð um 847 milljónir króna á móti 491 milljón á árinu 2013. Samkvæmt efnahagsreikningi námu heildareignir RARIK í árslok 48,5 milljörðum króna og hækkuðu um 1,7 milljarða króna á milli ára. Heildarskuldir námu 19 milljörðum króna og lækkuðu um 602 milljónir króna frá fyrra ári. Eigið fé var 29,5 milljarðar króna og er eiginfjárhlutfall því 61% samanborið við 58% í árslok 2013.

Fjárfestingar ársins voru 2,5 milljarðar króna, sem er um 1,2 milljörðum króna lægri fjárhæð en árið á undan. Skýrist það fyrst og fremst af mjög miklum fjárfestingum við hitaveitu á Skagaströnd og við rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja á árinu 2013.

Stjórn RARIK ohf. hefur lagt til við aðalfund að greiddar verði 310 milljónir króna í arð til ríkissjóðs. 

Áætlanir ársins 2015 gera ráð fyrir að forgangsorka aukist frá fyrra ári, en að dreifing raforku standi í stað.

RARIK ohf., sem er hlutafélag í eigu ríkisins, var stofnað 1. ágúst 2006 og tók þá við rekstri Rafmagnsveitna ríkisins sem hófu starfsemi sína 1. janúar árið 1947.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK