Vinnustaðadaður hefur góð áhrif

Kynorkan getur haft mikil áhrif á vinnuna að sögn Ragnheiðar.
Kynorkan getur haft mikil áhrif á vinnuna að sögn Ragnheiðar. AFP

„Ef þú ert að daðra á vinnustað er alveg sjálfsagt að skapa auð fyrir umgjörðina sem gerir það mögulegt,“ segir Ragnheiður Eiríksdóttir, kynlífshjúkrunarfræðingur, sem vill meina að vinnustaðadaður geti virkað sem orkuskot fyrir starfsmenn og leitt til aukinnar framleiðni. „Maður sem er uppfullur af krafti er að sjálfsögðu betri starfsmaður.“

Þetta kom fram í máli hennar á morgunverðarfundi Odda, þar sem meðal annars var fjallað um ávinning og ógnir við vinnustaðadaður. „Við erum öll mannleg og vitum að kynorkan getur haft mikil áhrif í vinnunni,“ sagði Ragnheiður og bætti við að hún tæki ekki undir varúðarraddir. „ Það er varað við þessari vá í ýmsum greinum. Því er ég alls ekki sammála og tel að daðrið geti veitt gleði og haft góð áhrif á sjálfstraustið.“

„Ég lít ekki á vinnustaðadaður sem lárétta sleipa braut sem leiðir okkur í lostafulla stöðu,“ sagði Ragnheiður.

Erótískur höfuðstóll skapar velgengni

Ragnheiður vísaði til þess að þrír þættir hefðu mikil áhrif á velgengni manna; Menning, félagsleg staða og efnahagur. Þá sagði hún að fjórði þátturinn væri ekki síður mikilvægur, svokallaður erótískur höfuðstóll, sem tengist allt frá sjarma, hæfileikanum til þess að tengjast öðru fólki, augnaráði, brosmildi og raddtón. „Erótíski höfuðstóllinn getur haft mikið um það að segja hvort við fáum framgang á vinnustað, stöðuhækkun eða hvort við fáum loksins þessa hornskrifstofu,“ sagði Ragnheiður létt í bragði.

Finna mörkin og virða þau

Hún benti þó á nokkur lykilatriði sem nauðsynlegt er að hafa í huga varðandi vinnustaðadaður. Í fyrsta lagi máttu „ekki vera kríp.“ Þetta sagði hún vandmeðfarið þar sem Íslendingar geta verið kaldir og þurrir og misskilið almennilegheit og hrós og túlkað sem viðreynslu. „Það þarf að vera vakandi fyrir því hvort vinnufélaginn vilji samskipti af þessu tagi,“ sagði hún og vísaði til þess að samstarfsmaður hennar nuddaði stundum á henni axlirnar. Þetta væru þeirra samskipti en ef einhver annar myndi sýna sömu hegðun færi það líklega illa. „Það þarf að finna línuna og fylgja henni,“ sagði Ragnheiður.

Þá sagði hún nauðsynlegt að vera vakandi fyrir merkjum. „Færðu brosið á móti? Er þetta einhliða? Það þarf að fylgjast með og virða mörkin,“ sagði Ragnheiður. Loks sagði hún hallærislegt að bíða eftir næsta vinnustaðapartí til þess að daðra. „Þú átt ekki að þurfa að hella í þig áður en þú segir vinnufélaganum að þér finnist hann sætur,“ sagði hún.

„Að fá jákvæða athygli frá einhverjum er stórkostlegt og ef við erum að daðra á vinnustöðum er um að gera að njóta þess,“ segir Ragnheiður sem hvetur fólk til þess að nýta kynorkuna í starfinu.

Ragnheiður Eiríksdóttir, kynlífshjúkrunarfræðingur og blaðamaður.
Ragnheiður Eiríksdóttir, kynlífshjúkrunarfræðingur og blaðamaður. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK