Nóbel í útrás til Bandaríkjanna

Davíð Ingi Magnússon, framkvæmdastjóri Nóbel námsbúða.
Davíð Ingi Magnússon, framkvæmdastjóri Nóbel námsbúða. Eggert Jóhannesson

Nóbel-námsbúðir hafa vakið lukku hér á landi með námskeiðum sem hjálpa framhalds- og háskólanemum að standast erfiðustu prófin. Að jafnaði fá Nóbel-nemendur einkunn sem er einum heilum hærri en meðaltalið. Stefnan er sett á að vera með milljón skjólstæðinga innan fimm ára.

Menntafyrirtækið Nóbel-námsbúðir hefur vaxið hratt á skömmum tíma og stefnir í að rúmlega þrjú þúsund nemendur sæki námskeið Nóbel í aðdraganda vorprófa. Unnið er að stofnun Nóbel í Bandaríkjunum undir merkjum NobelAcademy og markið sett á að aðstoða yfir milljón nemendur fyrir árið 2020.

Davíð Ingi Magnússon situr í framkvæmdastjórn Nóbel en Atli Bjarnason stofnaði fyrirtækið upphaflega. „Það sem við gerum er í grunninn að kanna hvaða námskeið nemendur þurfa aðstoð í og finna nemanda sem stóð sig framúrskarandi vel á sama námskeiði skömmu áður og hefur ákveðna persónulega eiginleika sem frábærir kennarar búa yfir,“ útskýrir Davíð.

„Þegar við höfum fundið þennan framúrskarandi jafningja tökum við hann í kennsluþjálfun þar sem hann lærir að koma þekkingu sinni og innsýn til skila á skemmtilegan, skilvirkan og skýran hátt. Höldum við sérstakan Nóbelskóla með aðkomu fjölda fagaðila frá t.d. Dale Carnegie, Franklin Covey og JCI auk þess sem gæðastýring námskeiða er í höndum Helga Þorsteinssonar, reynslubolta úr röðum Nóbel. Með þetta veganesti er nemandinn tilbúinn  að kenna sitt eigið Nóbel-námskeið fyrir jafningja sína.“

Allt að 150 nemendur í einu

Námskeiðin eru haldin tveimur til þremur dögum fyrir lokapróf í viðkomandi fagi og taka að jafnaði um 10 klst. en geta spannað frá fimm og upp í 20 stundir, allt eftir óskum og þörfum nemenda. Nemendur borga í flestum tilfellum 9.500-11.500 kr. fyrir hvert námskeið en fá magnafslátt ef þeir sækja námskeið í mörgum fögum. Meðalraunverð fyrir hvert námskeið er því lægra eða 8.400kr. „Kennslustjórinn fær fasta þóknun fyrir námskeiðið óháð fjölda þátttakenda og að auki prósentur af greiddum námskeiðsgjöldum. Það er því einnig fjárhagslegur hvati til staðar fyrir hann eða hana að kynna námskeiðið vel og aðstoða sem flesta nemendur,“ segir Davíð Ingi og bætir við að að jafnaði séu um tuttugu nemendur á námskeiði en fjöldinn geti verið frá einum nemanda upp í 150 í sumum tilvikum.

Nóbel er í dag með 150 námskeið í boði í 17 framhalds- og háskólum um land allt. Þá er ráðgert að bjóða öllum nemendum í 10. bekk upp á ókeypis Nóbel-námskeið í stærðfræði fyrir lokaprófin, hinn 9. maí næstkomandi, og hafa 80 nemendur nú þegar skráð sig.

Árangur með litlum tilkostnaði

Fyrirtækið var formlega stofnað fyrir þremur árum en þar á undan hafði stofnandinn Atli Bjarnason boðið upp á sams konar kennslu á eigin vegum. Yfirbyggingu hefur verið haldið í lágmarki og segir Davíð Ingi að það hafi ekki verið fyrr enn nýlega að úr varð að leigja lítið skrifstofuhúsnæði undir starfsemina. „Við gerðum það ekki síst vegna þess að við sáum að það er hagkvæmara að halda minnstu námskeiðin í okkar eigin húsnæði en að leigja kennslustofur. Í rauninni fáum við í kaupbæti aðstöðu fyrir starfsfólk okkar að undirbúa sig fyrir kennslu hina 10 mánuði ársins.“

Í sama anda eru útgjöld við markaðsmál skorin við nögl. „Við stólum í staðinn á samfélagsmiðla, starfsfólk okkar og gott umtal, og beitum ýmsum ráðum til að fá sem mestan sýnileika.“

Að sögn Davíðs Inga sýna kannanir Nóbel-námsbúða bæði að viðskiptavinirnir eru mjög ánægðir með kennsluna og eins að nemendur frá Nóbel ná betri árangri á prófum en aðrir. „Að meðaltali fá þeir einkunn sem er einum heilum yfir heildarmeðaltalinu úr sama prófi, en þá verður að hafa í huga að þessir nemendur eru líka taldir með í heildarmeðtalinu sem skólarnir reikna, svo raunverulegi munurinn á frammistöðu gæti verið enn meiri.“

Byrja á vesturströndinni

Atli Bjarnason, stofnandinn, er núna staddur úti í Kaliforníu og mun Davíð Ingi, ásamt Sigvalda Fannari Jónssyni, halda af landi brott áður en langt um líður til að koma fótunum undir fyrsta alþjóðlega útibú Nóbel. Davíð Ingi segir markmiðið að breiða jafningjafræðslu Nóbel út um öll Bandaríkin, eitt ríki í einu, og möguleikarnir séu gríðarlegir. „Sem dæmi um fjölda nemenda þá eru bara í Kaliforníu einni saman fimmtíu skólar sem eru jafnstórir eða stærri en stærsti skóli Íslands, Háskóli Íslands.“

Allt verður þetta gert með lágmarkstilkostnaði. „Mjög fjársterkir aðilar hafa haft samband við okkur og sýnt áhuga á að fjárfesta í fyrirtækinu en við höfum afþakkað tilboðin til þessa. Við viljum ekki að áherslan verði á að selja og selja, og dreifi mögulega athyglinni frá því grundvallarmarkmiði að hjálpa nemendum að ná betri árangri.“

Nóbel hóf fyrst starfsemi haustið 2010, en þá voru kennd …
Nóbel hóf fyrst starfsemi haustið 2010, en þá voru kennd upprifjunarnámskeið í stærðfræði og bókhaldi fyrir viðskiptafræðinemendur Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nóbel er í dag með 150 námskeið í boði í …
Nóbel er í dag með 150 námskeið í boði í 17 framhalds- og háskólum um land allt. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK