Ekki gert til þess að ógna öryggi

Mynd/Eimskip

„Verkfallsaðgerðir eru ekki settar fram til þess að ógna öryggi landsmanna. Ef þetta eru lífsnauðsynlegar vörur líkt og lyf trúi ég ekki öðru en að við fáum að leysa það út,“ segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips.

Félagsmenn VR, Flóa­banda­lags­ins og LÍV hjá skipafélögum hafa boðað verkfallsaðgerðir frá miðnætti 2. júní til miðnætt­is 3. júní. Allsherjarverkfall skellur á þann 6. júní ef ekki næst að semja.

Aðspurður um áhrif verkfallsins á starfsemi Eimskips segir Ólafur að starfsmenn séu í um þrjátíu verkalýðsfélögum og að áhrifin séu því ekki alveg ljós. Hafnaverkamenn og skrifstofufólk fer að minnsta kosti í verkfall og starfsemin verður því verulega skert. „Við vitum ekki hversu mikið af vörum viðskiptavinir okkar eiga pantaðar þessa daga og vitum ekki hvaða undanþágur fást. Áhrifin verða því ekki alveg ljós fyrr en aðgerðirnar skella á.“

Skrifstofum lokað

Skrifstofum Eimskips verður lokað þessa daga þótt einhver utan verkalýðsfélagana gæti mögulega svarað í símann að sögn Ólafs.

Ef hafnaverkamenn fara í verkfall geta skipin þá mögulega ekki komið að landi og ekki verður hægt að leysa vörurnar frá borði. 

„Ef við fáum skip að landi í verkfallinu trúi ég nú ekki öðru en að menn fái að binda það að bryggju,“ segir Ólafur og ítrekar að ekki sé ljóst hvaða undanþágur verði hægt að fá og segir að innflytjendur eiga eftir að semja við verkalýðsfélögin. „Ef í farminum eru lyf gæti ég vel trúað því að undanþága fáist en ef um munaðarvörur er að ræða væri það kannski síður,“ segir hann.

Eimskipafélagið er með sextán skip í rekstri og um helmingur starfseminnar er utan Íslands. Verkfallsaðgerðirnar hafa eðli máls samkvæmt bara áhrif hér á landi og áhrif þeirra á fyrirtækið eru minni sökum þess. 

Betur stödd en flugfélög

Um sex skip koma reglulega með farm til Íslands og Ólafur segir að svo geti vel farið að engin þeirra eigi að koma að landi þann 2. og 3. júní. „Við stöndum betur en flugfélögin að því leyti að við erum að sigla á nokkrum dögum á meðan þau eru að fara leiðina á nokkrum klukkustundum,“ segir hann og bætir við að fyrirtækið verði þó vissulega fyrir áhrifum ef ótímabundið verkfall skellur á.

„Eins og aðrir lifum við bara í voninni um að það verði ekki af verkfallinu.“

Samskip vildi ekki veita upplýsingar um möguleg áhrif verkfallsins á starfsemina en verið að fara yfir málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK