Ný aðferð til að mæla notkun á vefmiðlum

„Það sem er merkilegt við þetta verkefni, sem hefur verið í gangi í rúmt ár, er að í þetta er í fyrsta sinn sem netmiðlar á Íslandi taka sig saman og láta mæla notkun einstaklinga á vefjunum með sameiginlegum hætti. Þetta er því líkt og hefur verið gert með sjónvarp, útvarp og dagblöð um margra árabil,“ segir Ólafur Þór Gylfason, forstjóri MMR, í samtali við mbl.is um Netsjá, netmiðlakönnun MMR.

Nýlega vart birt ný upplýsingasíða á netinu þar sem skoða má niðurstöður netmiðlakönnunarinnar, net.mmr.is.

Það sem er merkilegt við þessar upplýsingar er að nú er hægt að sjá hversu margir eru að nota vefina, en fyrri aðferðir hafa gengið út á að telja fjölda tækja eða vafra sem voru notaðir til að sækja efni á vefina. Þær aðferðir hafa auðvitað þann ókost að hver og einn notar oft mörg tæki til að sækja efni, svo sem síma, tölvur og spjaldtölvur.

Mælingarnar byggja á rafrænum teljaragögnum Modernus annars vegar og gögnum um netnotkun sem safnað er í spurningakönnun MMR meðal almennings hins vegar. Við úrvinnslu gagnanna er þessum tvennum upplýsingaveitum spyrt saman þannig að úr verði gagnagrunnur sem endurspeglar raunverulega heimsóknarfjölda á hvert vefsetur mælt í síðufléttingum sem og fjölda einstaklinga.

Eru niðurstöðurnar greinanlegar eftir ólíkum notendahópum.

Vandi við fyrri aðferðina

Ólafur Þór segir að upplýsingarnar sem hafi verið tiltækar hingað til séu mjög góðar, svo sem vefmælingar Modernus. „Það er vélræn mæling sem mælir í raun og veru hversu mörg tæki eru notuð til þess að komast í samband við vefina og nálgast upplýsingar. En vandinn er kannski sá að maður er í símanum, spjaldtölvunni og með þrjá vafra opna í tölvunni og hver og einn vafri telur sem eitt tæki.

Það sem við erum búnir að gera er að tengja saman upplýsingar úr hefðbundinni skoðanakönnun og þessi rafrænu teljaragögn frá Modernus, þannig að nú er hægt að sjá hve margar persónur eru að nota vefina og skoða hvaða einstaklingar þetta eru; hvort þeir séu karl eða kona, hvort þeir hafi áhuga á að lesa um vín eða menningu, hvaða frístundir þeir ástunda og svo framvegis.

Með þessum hætti geta vefmiðlarnir sjálfir stýrt efninu sínu betur og vitað hverjir eru að nota vefinn og þá geta auglýsendur fengið að vita hvað þeir eru að kaupa,“ segir Ólafur Þór.

Þannig að gögnin nýtast vefjunum til að þróa efni sitt frekar og jafnframt fyrir auglýsendur til að vita til hvaða fólks auglýsingarnar þeirra ná á viðkomandi vefjum.

Verið í þróun í yfir ár

Hann segir að vefurinn, net.mmr.is, hafi verið í þróun í yfir ár, en „nú er þetta tiltækt til að birta opinberlega, þannig að hver sem er getur séð meginniðurstöðurnar með einföldum hætti“.

Gögnin eru unnin fyrir fjögurra vikna tímabil í hverjum mánuði í senn og gefa til kynna notkun vefjanna fyrir meðal viku í hverjum mánuði (birt fyrir meðalviku í heild, staka daga eða tiltekinn tíma dags). Nýjar tölur eru birtar mánaðarlega, að afloknu hverju gagnaöflunartímabili.

Verkefnið er samstarfsverkefni milli MMR, Árvakurs hf, 365 miðla ehf, Vefpressunnar ehf. DV ehf. Já upplýsingaveitna hf. Fótbolta ehf, ABS-fjölmiðlahúss ehf, Auglýsingamiðlunar ehf, Birtingahússins ehf, H:N markaðssamskipta ehf, MediaCom Íslandi ehf og Ratsjár media ehf.

87,9% Íslendinga heimsóttu mbl.is

Ólafur Þór segir merkilegt, þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar, hvað vefmiðlar hafa að jafnaði háa dekkun. Sem dæmi heimsóttu 87,9% Íslendinga á aldrinum 12-80 ára mbl.is og 82,0% visir.is á meðalviku í apríl. Þegar aldurshópurinn 12-50 ára er skoðaður sérstaklega má sjá að 93,1% Íslendinga heimsóttu mbl.is og 87,8% visir.is. „Það eru ekki margir vefir sem hafa svona ofboðslega góða stöðu og enginn annar miðill á Íslandi,“ segir hann.

Einnig má geta þess að 17,9% Íslendinga á aldrinum 12-50 ára heimsótti vefsíðuna fotbolti.net á meðalviku í apríl. Þeir flettu síðunni að jafnaði 37 sinnum hver. mbl.is er eini vefurinn í mælingunni sem hver notandi á aldrinum 12-50 ára flettir oftar – eða 50,2 sinnum á einstakling að jafnaði - alls 7.520.000 flettingar.

Þá má lesa úr niðurstöðunum að á meðal þriðjudegi í apríl hafi að jafnaði 64,1% Íslendinga á aldrinum 12-80 ára heimsótt mbl.is og 59,8% heimsótt visir.is. Til samanburðar heimsóttu 51,4% mbl.is og 42,1% visir.is á meðal laugardegi í apríl.

Á meðaldegi í apríl heimsóttu jafnframt að jafnaði 9,5% einstaklinga á aldrinum 12-80 ára mbl.is frá klukkan 21.00-22.00. Til samanburðar heimsóttu að jafnaði 7,5% Íslendinga mbl.is frá klukkan 19.00-20.00.

Ólafur Þór Gylfason, framkvæmdastjóri MMR.
Ólafur Þór Gylfason, framkvæmdastjóri MMR. mbl.is/Ernir
87,9% Íslendinga á aldrinum 12-80 ára heimsóttu mbl.is á meðalviku …
87,9% Íslendinga á aldrinum 12-80 ára heimsóttu mbl.is á meðalviku í apríl. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK