Sitja mögulega uppi með kostnað

Verkfallsaðgerðir eru boðaðar þann 5. og 6. júní
Verkfallsaðgerðir eru boðaðar þann 5. og 6. júní Sigurgeir Sigurðsson

Þeir sem ætla í utanlandsferð á eigin vegum gætu þurft að gera ráðstafanir til að minnka líkurnar á að þurfa að borga fyrir gistingu og bílaleigubíl ef flugsamgöngur stöðvast eftir mánaðarmót.

Verkfallsaðgerðum hefur verið frestað um fimm daga og má því búast við verkfalli hjá starfsmönnum í flugafgreiðslu þann 5. og 6. júní ef ekki verður samið fyrir þann tíma. Allsherjarverkfall hefst þá 11. júní.

Komi til þessara verkfalla gæti þurft að fresta öllu flugi frá landinu. Flugfarþegar eiga þá rétt á að fá fargjöldin endurgreidd eða flugmiðanum breytt.

Túristi bendir á að staða ferðalanga sé hins vegar verri þegar kemur að bókunum á gistingu, bílaleigubílum og tengiflugi. Alla vega fyrir þann hóp sem er að fara út á eigin vegum en ekki með ferðaskrifstofu.

Það er til að mynda algengt að staðgreiða þurfi ódýrustu herbergin á hótelum og fæst upphæðin ekki endurgreidd ef breytingar verða á ferðatilhögun. Þeir sem hafa bókað gistingu með sveigjalegri skilyrðum mega oft afbóka fram á komudag. Hjá bílaleigum má oftast breyta pöntunum og fella niður en þó stundum gegn gjaldi.

Þeim sem sjá fram á að þurfa að gera breytingar á ferðaáætlun sinni er því bent á að kanna hvaða skilyrði gilda hjá þeim aðilum sem bókað var hjá. 

Mismunandi staða varðandi tengiflug

Þó framboð á beinu flugi frá Keflavík hafi aldrei verið meira þá eru líklega ófáir á leið í tengiflug þessa daga sem yfirvofandi vinnustöðvun stendur yfir. Farþegi sem er með flugið héðan og tengiflugið á einum miða er á ábyrgð flugfélagsins eða ferðaskrifstofunnar þar sem miðinn var keyptur. Missi hann af tengifluginu á hann rétt á að komast á áfangastað án aukakostnaðar.

Farþegar sem bókuðu hins vegar flugin tvö í sitthvoru lagi eiga ekki rétt á nýjum miðum samkvæmt upplýsingaþjónustu flugfarþega sem Evrópuráðið starfrækir. Sömu reglur gilda vestanhafs samkvæmt því sem Túristi kemst næst. Ferðatryggingar bæta ólíklega þann fjárhags skaða sem farþegar verða fyrir vegna verkfalla.

Dæmi um ólíka stöðu farþega á leið í tengiflug:

Farþegi A bókar flug frá Keflavík til Madrídar, með millilendingu í Kaupmannahöfn, á einum miða hjá ferðaskrifstofu eða flugfélagi. Missi farþegi af framhaldsfluginu til Madrídar vegna langrar tafar á fluginu frá Íslandi á hann rétt á að honum verði komið áfram á áfangastað án aukakostnaðar. Undir venjulegum kringumstæðum ætti viðkomandi einnig rétt á fébótum vegna seinkunarinnar en ekki þegar vinnudeila er ástæðan fyrir henni.

Farþegi B bókar flug frá Keflavík til Kaupmannahafnar með áætlaðri komu í Kastrup um hádegisbil. Fjórum tímum síðar á viðkomandi bókað flug, á öðrum miða, frá Kaupmannahöfn til Madrídar. Vegna vinnudeilunnar í Keflavík missir farþeginn af tengifluginu. Í Kaupmannahöfn er viðkomandi á eigin vegum og þarf að kaupa nýjan miða til Madrídar. Það gæti þó hjálpað að hafa samband við flugfélagið sem fljúga á með frá Kaupmannahöfn og upplýsa um stöðuna. Flugfélaginu er þó ekki skilt að veita neinn afslátt eða sérþjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK