Þriggja rétta máltíð í Öræfum

Stefán og Atli bróðir hans hafa mikla ástríðu fyrir verkefninu.
Stefán og Atli bróðir hans hafa mikla ástríðu fyrir verkefninu. Ljósmynd/ Anna Marsý

„Ég held að þú sért fyrsti Íslendingurinn sem ég afgreiði hérna,“ segir Stefán Þór Arnarson þegar hann réttir blaðamanni ilmandi humarsúpu út um lúguna á veitingavagninum sínum í Skaftafelli við Vatnajökul. Það er sólríkur dagur og þó svo að vissulega sé lítið um Íslendinga er nóg af svöngum ferðamönnum sem streyma að til að bragða á dýrindis kræsingum sem Stefán og bróðir hans, Atli Arnarsson, matreiða undir merkjum Glacier Goodies.

„Þetta kemur í sveiflum, fer svolítið eftir veðri,“ segir Stefán um fjölda viðskiptavina og sest niður með blaðamanni utan við vagninn þegar stund gefst milli stríða. „Maður hefur ekki beint tíma til að pæla í því.“

Glacier Goodies sérhæfir sig í gæðamatargerð með hráefni úr Austur-Skaftafellssýslu og er vagninn splunkunýr af nálinni. Stefán segir aðdragandann hafa verið stuttan, hugmyndin hafi kviknað í borðsal Sigurðar Ólafssonar á netavertíð í janúar og Glacier Goodies opnaði lúgurnar fyrir gestum og gangandi hinn 23. maí.

„Vagninn er ástríðuverkefni sem vatt upp á sig, þetta byrjaði sem spjall og pælingar en fljótlega fór maður að fá gríðarlega ástríðu fyrir hugmyndinni,“ segir Stefán en bætir því við að ástríðan hafi reyndar blundað í honum í nokkurn tíma, enda er hann lærður matreiðslumeistari þrátt fyrir að hafa starfað við hótelstjórn síðastliðin ár. „Maður hugsar þetta út frá heildarupplifun ferðamanna í sýslunni. Þjónustu með mat hefur verið ábótavant eiginlega um alla Austur-Skaftafellssýslu þótt það hafi reyndar batnað mjög mikið niðri á Höfn þar sem eru glæsilegir og metnaðarfullir veitingastaðir. Sá metnaður hefur ekki skilað sér nóg í sýslurnar. Það eru svona gullmolar hérna eins og Skaftafell og Jökulsárlón sem mikið af fólki heimsækir, það þarf að þjónusta þetta fólk og matur er hluti af því.“

Huggulegri staðsetningu er vart hægt að ímynda sér.
Huggulegri staðsetningu er vart hægt að ímynda sér. Ljósmynd/Anna Marsý

Öll matarnördar inn við beinið

Glacier Goodies býður upp á fimm rétti; humarsúpu, „fish and chips“, humar-„tempura“, grillað lambakjöt og djúpsteiktan ís. Lambið er grillað á náttúrulegum viðarkolum en ástæðuna segir Stefán þá að slík kol hafi verið framleidd í Öræfunum áður fyrr. „Þegar maður grillar á 100% náttúrulegum viðarkolum verður bragðið alveg sérstakt. Á þessari græju sem við erum að nota getum við hæggrillað og safinn sem fer úr kjötinu drýpur á kolin  og þannig verður kjötið reykt í eigin safa. Við erum mjög ánægðir með útkomuna.“

Stefán segir vagninn bjóða upp á svokallaða upplifunarferðamennsku og bendir á slagorð vagnsins: „We are all foodies at heart“. „ Orðið „foodie“ þýðir í rauninni matarnörd. Ég hef sjálfur meira gaman af því að leita uppi „lókal“ mat eða götumat en að skoða kirkjur, ég held að það séu ótrúlega margir sem hafa gaman af því að smakka eitthvað nýtt. Þess vegna vildum við bjóða „lókal“ mat og reyna að taka eldamennskuna einnig inn í þetta.“

Vagninn er fluttur inn frá Svíþjóð og útlit hans, vörumerkið sem og umbúðir Glacier goodies er hannað af Hype markaðsstofu. Nánast allir aðrir þættir starfseminnar eru hins vegar „lókal“ eins og Stefán orðar það. Humarinn og fiskurinn er frá Höfn en þaðan eru einmitt bræðurnir og allir samstarfsmenn þeirra. Lambakjötið kemur frá Norðlenska og ísinn er fenginn frá bænum Brunnhóli.

„Heimaframleiðslan heitir Jöklaís og þeir selja hann beint frá býli. Við tökum hann sumsé og djúpsteikjum hann. Sumir fíla það og sumir ekki, en við viljum vera svolítið flippaðir,“ segir Stefán og glottir.

Glacier goodies leggur áherslu á hráefni og matargerð tengda svæðinu.
Glacier goodies leggur áherslu á hráefni og matargerð tengda svæðinu. Ljósmynd/ Anna Marsý

Vaða ekki í skýjaborgir

Stefán segist reikna með að Glacier Goodies verði í Skaftafelli til 20. september en eftir það sé framtíðin óráðin. „Veitingavagnar henta vel á staði þar sem eru öfgafullar sveiflur af ferðamönnum. Þegar vertíðinni lýkur hér getum við tekið brúðkaup og árshátíðir eða jafnvel kvikmyndaverkefni eins og komið hafa upp í sýslunni en grunnurinn verður alltaf þessi fjögurra mánaða vertíð.“

Stefán segir drauminn vera að bæta við vögnum og vera jafnvel með þrjá vagna í sýslunni sem geti þá verið sérhæfðari líkt og þeir vagnar sem gestir miðbæjar Reykjavíkur eiga að venjast.

„Við ákváðum að vera með þetta svona fjölbreytt á meðan vagninn er bara einn en maður sér jafnvel fyrir sér að taka súpuna út og færa í súpuvagn. Svo sæi maður alveg fyrir sér að taka fiskinn út og fara með eitthvað annað, en allt eftir sömu hugmyndafræði. Þetta er ákveðinn draumur en við erum ákveðnir í því að klára þetta sumar og koma út úr því reynslunni ríkari. Við lærum og sjáum hvernig þetta gengur áður en við vöðum í einhverjar skýjaborgir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK