Gáfu út skuldabréf fyrir milljarð

MP Straumur og rekstrarfélagið Stefnir hafa lokið skuldabréfaútgáfu með veði í lánasafni. Gefnir eru út tveir flokkar skuldabréfa til þriggja ára, annars vegar forgangsskuldabréf til fjárfesta og hins vegar víkjandi skuldabréf að nafnvirði kr. 114.983.505 til MP Straums.

Útgefandi skuldabréfanna er Ármúli Lánasafn, sjóður í rekstri hjá Stefni.

Alls bárust áskriftir fyrir kr. 1.440.000.000 í forgangsskuldabréfaútgáfuna og nam umframeftirspurn 39%. Skerðing áskrifta var því 28,1%. Nafnvirði útgáfunnar nam kr. 1.034.851.548 til fjárfesta. Af forgangsskuldabréfinu eru greiddir vextir tvisvar sinnum á ári og taka þeir mið af stýrivöxtum Seðlabanka Íslands að viðbættu 1,2% álagi og greiðslu höfuðstóls að þremur árum liðnum.

Tilgangur Ármúla Lánasafns eru kaup skuldaskjala MP Straums sem uppfylla fjárfestingastefnu Ármúla Lánasafns og er þá mið tekið af rekstri og rekstrarhorfum lántaka, fjárhagsstöðu, greiðslugetu, tryggingum fyrir lánum, skuldastöðu, hlutfalls eigin fjár, ásamt reynslu og þekkingu.

Í tilkynningu segir að með þessu sé hægt að bjóða eigendum forgangsskuldabréfa góða ávöxtun og á sama tíma öryggi fjármuna með útgáfu víkjandi skuldabréfs og ströngum skilyrðum sjóðsins fyrir kaupum á skuldaskjölum.

Þróunarvinna frá 2003

„Ég er ánægður með viðtökurnar í skuldabréfaútboðinu en um er að ræða nýja vöru sem MP Straumur í samstarfi við Stefni hafa komið með á fjármálamarkaðinn. Sérstaklega er ég ánægður með þá miklu umframeftirspurn sem var í útboðinu en hún sýnir traust fjárfesta á bankanum og styrkir fjármögnun MP Straums,“ er haft eftir Sigurði Atla Jónssyni, forstjóra MP Straums, í tilkynningu

„Skuldabréfaútgáfa Ármúla Lánasafns er afrakstur af langri þróunarvinnu í verðbréfun sem rekja má allt aftur til ársins 2003. Hér er hins vegar um að ræða nýjan möguleika í fjármögnun fjármálafyrirtækja, auk þess sem skuldabréfaútgáfan er góð viðbót á innlendum skuldabréfamarkaði. Ánægjulegt samstarf okkar við MP Straum gerir okkur kleift að bjóða fjárfestum aðgang að traustu eignasafni sem MP Straumur hefur byggt upp og þjónustar áfram.  Þetta kunna fjárfestar að meta og því var sérstaklega ánægjulegt að sjá breidd fagfjárfesta í hópi kaupenda í frumútboðinu, en þar var að finna tryggingafélög, verðbréfasjóði og lífeyrissjóði.” er haft eftir Jóni Finnbogasyni, forstöðumanni skuldabréfa hjá Stefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK