Afkoma Twitter betri en búist var við

AFP

Afkoma samfélagsmiðilsins Twitter var betri á öðrum fjórðungi ársins en fjármálagreinendur höfðu búist við. Jack Dorsey, einn stofnenda Twitter, segist þó ekki vera ánægður með fjölgun notenda samfélagsmiðilsins, sem er hægari en hann hafði gert sér vonir um.

Tekjur Twitter námu um 502 milljónum dala á ársfjórðunginum og jukust um 61% frá því á sama tíma í fyrra. Stjórnendur félagsins höfðu sjálfir gert ráð fyrir að tekjurnar yrðu um 485 milljónir dala.

Virkir notendur Twitter voru 316 milljónir talsins í lok tímabilsins, samanborið við 308 milljónir í lok fyrsta fjórðungs ársins.

Dorsey sagði, eftir að uppgjörið var birt í gær, að félagið ætti meira inni. Vörumerkið Twitter væri vel þekkt um allan heim, það væri greinilegt, en fólk vissi hins vegar ekki af hverju það ætti að nýta sér samfélagsmiðilinn.

Anthony Noto, fjármálastjóri Twitter, sagði á uppgjörsfundinum að félagið myndi í lok ársins hrinda úr vör markaðsherferð sem fjallar um af hverju fólk ætti að nota Twitter.

Hann sagði jafnframt að til stæði að einfalda vefinn, þannig að það yrði auðveldara að nota hann.

Fjárfestar tóku uppgjörinu í fyrstu fagnandi, en til marks um það hækkuðu hlutabréf strax um 6% í verði eftir að uppgjörið var birt. Hins vegar hafa bréfin fallið í verði síðan þá. Verðið stendur nú í 34,24 dölum á hlut og hefur lækkað um 10% það sem af er ári.

Félaginu hefur enn ekki tekist að skila hagnaði. Tapið á öðrum ársfjórðungi var þó töluvert minni en búist hafði verið við, eða 137 milljónir dala.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK