Opna Kalda bjórbað

Kaldi ætlar að opna bjórbað í Eyjafirði.
Kaldi ætlar að opna bjórbað í Eyjafirði. Skapti Hallgrímsson

Bjórbað, bjórsjampó, bjórsápa og veitingastaður. Þetta er allt eitthvað sem er á döfinni hjá eigendum Kalda brugghúss sem ætla að opna bjór-heilsulind næsta haust. Þar geta gestir slakað á í koparkari fullu af bjór og farið í nudd á eftir.

Agnes Sigurðardóttir, eigandi Kalda, hefur sjálf farið í nokkrar heilsulindir sem þessa í Tékklandi og Slóvakíu og tekur fram að þær tengist ekki neinu fylleríi „Það er mikill friður yfir þessum kerum og húðin verður eins og silki á eftir,“ segir hún.

Eigendur Kalda ætla að reisa 350 til 400 metra bjálkahús á Árskógarsandi í Eyjafirði fyrir starfsemina og hafa þegar keypt jörð og stofnað fyrirtæki í kringum reksturinn. Nú er unnið að því að safna fjármagni en Agnes gerir ráð fyrir að fjárfestingin nemi um 150 milljónum króna. Þá munu að líkum sjö til átta manns starfa í heilsulindinni.

Bera bjór á brunasár

Líkt og að framan segir verða körin alls sex talsins, þar af fjögur svokölluð hjónakör, sem ætluð eru fyrir pör, og tvö einstaklingskör. Í þeim verður þó ekki einungis hefðbundinn bjór heldur verður honum blandað saman við saltvatn, humla og ger, sem búið er að nota í bjórframleiðsluna. 

Ætlast er til þess að gestir liggi í blöndunni í um 25 mínútur og fari þá í hálftíma slökun og bíði með sturtu í um fjóra tíma. Agnes segir gerið vera einstaklega gott fyrir húðina og bætir við að fjölskylda hennar beri t.d. alltaf ógerilsneyddan bjór, líkt og Kalda, á húðina við bruna. „Þetta er svo ungur iðnaður á Íslandi og við þekkjum þetta svo lítið,“ segir hún við undrandi blaðamann.

Þá segir hún bjórinn einnig vera góðan í hárið en það er ekki óþekkt ráð og t.d. gaf bjórframleiðandinn Carlsberg á dögunum út snyrtivörulínu framleidda úr bjór. Agnes segist einmitt hafa keypt bjórsjampóið frá þeim og fer fögrum orðum um vöruna.

Almenn sala á Kalda-sjampó?

Til stendur að nota eigin vörur Kalda í heilsulindinni og þar með talið allar hreinlætisvörur. Agnes gerir þó ráð fyrir að flytja fyrst um sinn inn bjórsjampó og sápu frá Tékklandi og sérmerkja Kalda og nýta þannig þekkinguna þaðan. Síðar standi þó til að framleiða eigin vörur og útilokar hún ekki að koma þeim í almenna sölu.

Auk heilsulindarinnar ætlar Kaldi þá einnig að opna veitingastað á svæðinu og stefnir á að bjóða upp á mat sem passar vel við bjór auk þess að vera með fisk og lamb og nýta afurðir frá svæðinu.

Heilsulindin verður við bruggverksmiðju Kalda.
Heilsulindin verður við bruggverksmiðju Kalda. Mynd af Facebook síðu Kalda
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK