Mun meiri hagnaður tryggingafélaga

Höfuðstöðvar Sjóvá.
Höfuðstöðvar Sjóvá.

Tryggingafélögin Sjóvá og VÍS skiluðu mun meiri hagnaði á öðrum ársfjórðungi þessa árs en yfir sama tímabil í fyrra. Sömu sögu er að segja um afkomu félaganna fyrstu sex mánuði ársins, en félögin birtu uppgjör sín fyrir fyrri árshelming í dag.

Hagnaður Sjóvár á öðrum fjórðungi var 756 milljónir króna, en hann var 329 milljónir á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Hagnaður félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins var 1.380 milljónir króna, en hann var 205 milljónir á sama tímabili á síðasta ári.

Skýrist þessi bætta afkoma af mikilli aukningu fjárfestingatekna. Þær voru 963 milljónir á öðrum ársfjórðungi en voru 317 milljónir á sama fjórðungi 2014. Litið til fyrstu sex mánaða ársins fóru fjárfestingatekjur úr 258 milljónum í rétt rúmar 2.000 milljónir króna.

Eigin iðgjöld Sjóvár námu 3,3 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi og hækkuðu um 4,3% miðað við sama fjórðung í fyrra. Eigin tjón námu 2,5 milljörðum króna og jukust um 21,2% miðað við annan fjórðung síðasta árs. Samsett hlutfall Sjóvár var 100,8% á öðrum ársfjórðungi og 102,5% á fyrstu sex mánuðum ársins. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar lækkaði úr 40,2% í 34,3% á fyrri helmingi ársins, sem einkum skýrist af fjögurra milljarða króna arðgreiðslu til hluthafa á tímabilinu.

Hagnaður VÍS jókst um 47,5%

Hagnaður VÍS á öðrum ársfjórðungi var 685 milljónir, en hann var 465 milljónir í sama fjórðungi í fyrra og jókst því um 47,5%. Litið á hagnað fyrstu sex mánaða rekstrarársins jókst hann úr 451 milljón króna í 1.419 milljónir á þessu ári.

Fjárfestingatekjur VÍS voru 952 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi og tæplega tvöfölduðust miðað við sama tímabil í fyrra. Á fyrri árshelmingi námu fjárfestingartekjurnar hins vegar 1.419 milljónum króna samanborið við 451 milljón á fyrri hluta síðasta árs.

Samsett hlutfall VÍS var 103,7% á öðrum ársfjórðungi og 104,5% á fyrstu sex mánuðum ársins. Eigin8fjárhlutfall VÍS var 30,4% í lok júní, en félagið greiddi hluthöfum 2,5 milljarða arðgreiðslu í apríl og keypti eigin hlutabréf fyrir 470 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK