Eimskip skoðar kaup á notuðu skipi

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips.
Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýtt gámaskip sem Eimskip ætlaði að kaupa frá Kína var með afhendingadag á föstudaginn, en vegna seinkana var ákveðið að falla frá kaupunum og stefnir Eimskip nú á að fjárfesta í notuðu skipi til að fylla í skarðið. Þetta segir Gylfi Sigfússon, forstjóri félagsins, í samtali við mbl.is

Gylfi segir að félagið hafi ekki orðið fyrir neinu fjárhagstjóni vegna tafanna, öðrum en tímaseinkun. Segir hann að vegna bankaábyrgðar skipasmíðafyrirtækisins þá eigi Eimskip nú að fá allt sem þeir hafi lagt út endurgreitt, ásamt vöxtum. Þetta er annað gámaskipið af tveimur sem Eimskip samdi um árið 2011, en fyrra skipið kom í fyrra til landsins, ári á eftir áætlun.

Frétt mbl.is: Eimskip hættir við skip frá Kína

Gylfi segir að fyrst um sinn hafi gengið nokkuð vel við smíðina, en svo hafi farið að halla undan fæti í skipasmíðaiðnaðinum. „Við sáum hvert var að stefna,“ segir hann og að það hafi verið ákvörðun Eimskipa að stíga út úr samningnum og óska eftir endurgreiðslu. Segir Gylfi að þar sem umsaminn afhendingadagur hafi verið á föstudaginn, þá hafi þeir þurft að bíða þangað til til að rifta samningnum, jafnvel þótt framleiðandinn hafi fyrir talsverðum tíma verið búinn að gefa út að tafir yrðu á afhendingu upp á eitt eða eitt og hálft ár.

Eimskip mun áfram skoða möguleika á að fjárfesta í svipuðu gámaskipi, en nýju skipin tvö eru bæði tæplega 900 gámaeiningar. Gylfi segir að nýsmíði taki 2-3 ár og að nú sé mjög hagstæður markaður fyrir notuð skip sem séu kannski 6-7 ára. Hann tekur því fyrir að horft verði til nýsmíði.

Áhrifin á félagið vegna þessara tafa eru lítilsháttar að sögn Gylfa, en skipið sem nýja skipið átti að leysa af hólmi er 720 gámaeiningar og því ekki um mikinn stærðarmun að ræða. Færa átti það á Ameríkuleið félagsins eftir að nýja skipið kæmi, en þar er fyrir leiguskip. Áhrifin á flutningakerfi Eimskipa og framtíðaráform eru því að sögn Gylfa lítilsháttar.

Þrátt fyrir miklar tafir á smíði skipanna beggja, þá segir Gylfi að öll samskipti við kínversku skipasmíðastöðina og bankann úti hafi verið mjög góð. Segir hann að meðal annars hafi félagið leitað til kínverska sendiráðsins hér heima sem hafi reynst þeim vel varðandi samskipti við erlendu aðilana. Segir hann þetta eðlilegan farveg málsins miðað við hvernig það þróaðist og að slík aðstaða hafi marg oft komið upp hjá skipakaupendum.

Lagarfoss er systurskip þess sem hætt var við í dag. …
Lagarfoss er systurskip þess sem hætt var við í dag. Það kom til landsins fyrir ári síðan. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK