Bjarni fékk klapp á bakið

Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, hrósaði Bjarna fyrir …
Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, hrósaði Bjarna fyrir stöðuna á Íslandi. mbl.is/Golli

Ísland er komið yfir versta hjallann og Íslendingar geta horft fram veginn og hugað að auknum hagvexti í stað þess að koma í veg fyrir samdrátt. Þannig eru hagvaxtarhorfur í ár tvöfalt hærri en meðaltalið í OECD löndunum og á næsta ári spáir stofnunin 3,7% hagvexti á meðan meðaltal hinna ríkjanna er 2,5%. Þá stefnir í afgang hjá ríkissjóði og hér eru nokkuð góðir innviðir. Þetta var meðal þess sem Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, fór yfir á kynningarfundi þegar nýr skýrsla OECD um Ísland var kynnt í dag.

Í framhaldinu sagðist Gurría vilja gefa Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, gott klapp á bakið vegna þessa árangurs og teygði sig að Bjarna og lét ekki orðin duga heldur klappaði duglega á öxlina á fjármálaráðherra.

Staðan góð á Íslandi 

Meðal þess sem Gurría nefni í ræðu sinni var skipting auðæfa, en hann taldi stöðuna hér á landi vera mjög góða. OECD hefur undanfarin ár varað við misskiptingu auðs í heiminum, en Gurría fór yfir að í OECD löndunum væri meðaltalið að tekjur þeirra 10% sem best eru settir séu tífalt hærri en þeirra sem tilheyra neðstu 10%. Hér á landi sé hlutfallið aftur á móti þannig að tekjur þeirra sem eru í efstu 10% sé aðeins fimmfalt hærra en þeirra sem eru í neðstu 10%. Sagði hann þetta benda til þess að hér væri ástandið mjög gott.

OECD spáir því að á þessu ári verði hagvöxtur á Íslandi 4,3% og á því næsta 2,7%. Báðar tölurnar eru talsvert yfir meðaltali OECD landanna.

Áskoranir í tengslum við vöxt framleiðni og launaskrið

Þrátt fyrir að hafa gefið Bjarna klapp á bakið fyrir góðan árangur sagði Gurría að það væri talsvert um áskoranir framundan fyrir Íslendinga. Í fyrsta lagi þyrfti að horfa til þess að halda áfram að lækka skuldir og þá þyrfti að viðhalda stöðugleika og vexti framleiðni í landinu. Reyndar eyddi hann mestum tíma í að fara yfir það að hér virtist vöxtur framleiðni vera nálægt stöðnun, meðan laun hækkuðu mikið.

Þetta sagði hann vera hættulega þróun og þótt launahækkanir virtust gagnast launafólki, þá myndi þessi þróun aðeins koma niður á samkeppnishæfni landsins og ef ekkert væri að gert enda á sama hátt og gerðist í Grikklandi, hér og víðar. Í raun sagði hann að það þyrfti engan hagfræði doktor til að útskýra þetta mál, það væri í grunninn mjög einfalt. Framleiðniaukning þyrfti að vera meiri en launahækkun og það væri ekki staðan hér núna. Í ræðu sinni fór hann yfir kröfur hér á landi um hækkun launa sem væri mæld í tveimur tölustöfum. Sagðist hann ekkert skilja hvaðan slíkar kröfur kæmu og ítrekaði að áhrif af svona hækkunum gæti bitið til baka.

Mæla með sölu ríkiseigna til að lækka skuldir

Þegar röðin kom að skuldum ríkisins sagði Gurría að hér á landi væri mikill munur á hreinum skuldum og heildarskuldum, en það stafaði af miklum eignum ríkisins. Sagði hann að OECD ráðlegði íslenskum stjórnvöldum að selja eignir til að breyta þessu og lækka skuldastöðuna.

Gurría fór einnig yfir hugmyndir fjármálaráðherra um að setja lög um opinber fjármál og stofnun sjálfstæðs fjármálaráðs og sagði að slíkt myndi senda skilaboð út í heim til annarra ríkja um þessi mál. Stóra málið hér á landi til frambúðar væri svo að styrkja innviði, „þið þurfið að styrkja ykkur sjálf,“ sagði hann og bætti við að allar alþjóðlegar efnahagssveiflur gætu haft mikil áhrif á lítið opið hagkerfi og Íslendingar hefðu í sjálfu sér ekkert um stærri mál að segja og þyrftu því sjálfir að vera tilbúnir undir skakkaföll. Þannig hefðu Íslendingar t.d. ekkert að segja um heimsmarkaðsverð á olíu, efnahagsmál í Kína og Rússlandi eða vaxtaákvarðanir í Bandaríkjunum. Allt væru þetta þó atriði sem gætu haft mikil áhrif hér á landi. Aðgerðir Íslendingar þyrftu að miða að því að draga úr þessari áhættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK