Nova fer inn á greiðslumarkaðinn

Nova færði sig inn á greiðslumarkaðinn með Aur appinu.
Nova færði sig inn á greiðslumarkaðinn með Aur appinu.

Í lok september var ný greiðslugátt kynnt á markaðinn hér á landi undir nafninu Aur. Ekki er um venjulega greiðsluþjónustu fyrir fyrirtæki að ræða, heldur app sem á að gagnast fólki að framkvæma millifærslur sín á milli með því að notast við símanúmer í staðin fyrir kennitölu og bankanúmer. Á bak við hugmyndina stendur fjarskiptafyrirtækið Nova og hugbúnaðarfyrirtækið Stokkur.

Guðmundur Arnar Guðmundsson, markaðsstjóri Nova, segir í samtali við mbl.is að appið sé hugsað sem einföld leið til að borga og fá greitt sín á milli. „Eins og við þekkjum er fólk sjaldnast með pening á sér í dag svo þegar börnin biðja um pening í bíó, við þurfum að borga barnfóstrunni eða deila kostnaðinum fyrir pizzunni kemur appið í staðinn fyrir pening.” segir hann og bætir við að fyrir þá sem taki alltaf að sér að leggja út fyrir gjöfum í vinahópum sé þetta einnig himnasending.

Fjarskiptafyrirtækin taka breytingum

Með þessu skrefi fer Nova út á nýjan markað, en hingað til hefur fyrirtækið eingöngu horft á fjarskiptamarkaðinn. Önnur fjarskiptafyrirtæki, eins og Síminn og Vodafone hafa verið að reyna sig áfram á sjónvarps- og efnisveitumarkaði, auk þess sem fjölmiðlafyrirtækið 365 hefur fært sig yfir á fjarskiptamarkaðinn.

Aðspurður hvort Nova sé að stefna í nýjar áttir með þessu segir Guðmundur að hann telji þetta samrýmast upphaflegu hlutverki og stefnu Nova. Þannig hafi fyrirtækið alltaf horft til þess að styðja við breyttan lífsstíl viðskiptavina sinna samhliða snjallsímavæðingunni.

Appið tók þó nokkra mánuði í þróun, en það var Stokkur sem vann að appinu í samstarfi við Nova. Segir Guðmundur að viðtökurnar séu mjög góðar og í dag sé þetta mest sótta appið á Íslandi.

Verður áfram ókeypis að nota debethliðina

Ókeypis er að sækja appið og ef fólk skráir debetkort kostar heldur ekkert að nota appið. Ef það er aftur á móti tengt við kreditkort kostar hver færsla, en Guðmundur segir að það sé álíka og kostnaður við að taka peninga úr hraðbanka með slíku korti, þó kostnaðurinn sé lægri í tilfelli Aurs.

Aðspurður hvort að gera megi ráð fyrir að millifærslur af debetkortareikningum haldist ókeypis til frambúðar segir Guðmundur svo vera. Aur er með samning við Borgun varðandi greiðslumiðlun og geymslu á kortaupplýsingum.

Guðmundur Arnar Guðmundsson, markaðsstjóri Nova.
Guðmundur Arnar Guðmundsson, markaðsstjóri Nova. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK