13,5 milljarða arðgreiðslur í sjávarútvegi

Arðsemi í sjávarútvegi hefur verið verulega góð á síðustu árum.
Arðsemi í sjávarútvegi hefur verið verulega góð á síðustu árum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Arðgreiðslur til eigenda sjávarútvegsfélaga námu í heildina 13,5 milljörðum króna á árinu 2014 og jukust um 1,7 milljarða, eða fjórtán prósent, milli ára.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um sjávarútveginn. Þar segir að arðgreiðslur sem hlutfall af EBITDA, þ.e. afkomu fyrir vaxtagreiðslur, vaxtatekjur, skattgreiðslur og afskriftir, jukust einnig um þrjú prósentustig.

Árleg arðgreiðsla yfir tímabilið frá 2001 til 2014 nemur að meðaltali um 5,4 milljörðum króna en góð arðsemi í greininni hefur skapað svigrúm til aukinna arðgreiðslna undanfarin ár. Hafa ber í huga að arðgreiðslur koma til vegna hagnaðar ársins á undan.

Veiðigjöld lækka um 16,5%

Í skýrslu Íslandsbanka segir að frá innleiðingu kvótakerfisins hafi arðsemi í sjávarútvegi aukist umtalsvert. Samþjöppun óx innan greinarinnar samhliða því að aðgangur að fiskveiðiauðlindinni var takmarkaður og í kjölfarið hefur hagkvæmni í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja stóraukist.

Tekjur sjávarútvegsfélaga á árinu 2014 námu 262 milljörðum króna og standa í stað frá fyrra ári. EBITDA var 61 milljarður króna og EBITDA framlegð ársins 2014 sú sama og árið á undan. Á föstu verðlagi ársins 2014 hafa tekjur dregist saman um tvö prósent frá fyrra ári og er helsta ástæðan samdráttur í aflaverðmæti á milli áranna

Skatttekjur ríkisins af sjávarútvegi hafa almennt aukist samhliða aukinni arðsemi í greininni. Mikil hækkun varð á tekjuskatti á árunum 2012 til 2014 og greiddi sjávarútvegurinn að meðaltali um 7,7 milljarða króna á ári í tekjuskatt yfir tímabilið.

Hins vegar lækkuðu opinber gjöld sjávarútvegsfélaga á síðasta ári og námu um 22,9 milljörðum króna á árinu 2014 og lækkuðu um 1,6 milljarða eða um 6,5 prósent frá árinu á undan.

Munar mest á veiðigjöldum sem lækka um sömu fjárhæð og sem nemur heildarlækkun á opinberum gjöldum sjávarútvegsfélaga eða um 1,6 milljarða króna Voru veiðigjöldin því um 16,5 prósentum lægri á árinu 2014 en á árinu 2013. 

Framlag til landsframleiðslu dróst saman

Samkvæmt upplýsingum frá  Íslandsbanka var framlag sjávarútvegs til landsframleiðslu 8,4 prósent á síðasta ári og dróst saman um 1,1 prósentustig milli ára. Íslenski sjávarklasinn hefur metið framlag sjávarútvegs til landsframleiðslu, bæði beint og óbeint, talsvert hærra eða um 25 til 30 prósent. Óstöðugt efnahagsumhverfi, þ.m.t. sveiflur í gengi krónunnar, skýra að mestu leyti sveiflur í framlagi greinarinnar til þjóðarbúskaparins.

Íslandsbanki hefur tekið saman skýrslu um stöðu sjávarútvegsins.
Íslandsbanki hefur tekið saman skýrslu um stöðu sjávarútvegsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK