Reiðufé verður vinsælla

Hlutdeild 10 þúsund króna seðilsins hefur aukist.
Hlutdeild 10 þúsund króna seðilsins hefur aukist. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Reiðufé í umferð hefur aukist mikið á yfirstandandi ári og nota Íslendingar orðið meira reiðufé en Svíar og Norðmenn. Árið 2014 streymdu um 60 milljarðar króna úr íslenskum hraðbönkum og var meðalúttektin með íslensku debetkorti úr hraðbanka 13.700 krónur en 17.400 með kreditkorti.

Þetta kemur fram í nýrri útgáfu Fjármálainnviða, riti Seðlabankans.

Í lok ársins 2014 voru 44 milljarðar króna í reiðufé í umferð fyrir utan Seðlabanka og innlánsstofnanir. Aukningin á árinu nam 2,4 milljörðum 5,8 prósentum, samanborið við 1,8 prósent árið á undan. Tólf mánaða aukning reiðufjár til októberloka 2015 var þá 9,5 prósent.

Seðlabankinn bendir á að eftirtektarvert sé að aukning árin 2014 og 2015 sé meiri en árin 2012 og 2013. Líklegt er talið að fjölgun erlendra ferðamanna skýri stóran hluta þessarar aukningar. 

Líkt og áður segir nota Íslendingar meira reiðufé en Svíar og Norðmenn og hefur notkunin þar og í Danmörku dregist saman á síðustu árum á sama tíma og notkunin hefur staðið í stað á Íslandi. Seðlabankinn hafði reiknað með að hlutfall reiðufjár í umferð af vergri landsframleiðslu myndi minnka en það hefur ekki gengið eftir.

Þriðjungur er 10.000 króna seðill

Í lok ársins 2014 voru 13,7 milljónir seðla í umferð og hefur hlutdeild verðmætari seðla aukist á kostnað þeirra verðminni. Núna er um þriðjungur verðmætis útgefinna seðla 10 þúsund krónur, sem leit fyrst dagsins ljós í október 2013, eða um 16 milljarðar króna.

Samhliða þessari þróun hefur hlutdeild fimm þúsund króna seðla minnkað úr 86 prósentum í 55 prósent.

Á árinu 2011 ákvað Seðlabankinn að láta ekki prenta fleiri tvö þúsund króna seðla. Seðillinn verður látinn fjara út en verður hins vegar ekki innkallaður. Þá eru um tíu prósent af verðmæti seðla í umferð eitt þúsund króna seðlar, sem hafa haldið hlutdeild sinni síðustu ár.

Um 2,5 prósent af verðmæti seðla í umferð eru 500 króna seðlar en hlutur þeirra hefur minnkað lítillega síðustu ár. Ein ástæða þess er að þeir hafa verið teknir úr mörgum hraðbönkum síðustu misseri. 

Árið 2014 streymdu um 60 milljarðar króna úr íslenskum hraðbönkum
Árið 2014 streymdu um 60 milljarðar króna úr íslenskum hraðbönkum mbl.is/ÞÖK
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK