Aukin samkeppni hefur áhrif á Símann

Orri Hauksson, forstjóri Símans.
Orri Hauksson, forstjóri Símans. mbl.is/Golli

Hagnaður Símans dróst saman milli ára og forstjóri fyrirtækisins vísar í harðnandi samkeppni og ófyrirséðar launahækkanir. Því var ráðist í að stilla liðsheildinni upp að nýju með hagræðingu í huga um leið og sett var skarpari áhersla á vöruþróun og framtíðartekjur.

Hagnaður Símans á fyrsta ársfjórðungi nam 310 milljónum króna samanborið við 792 milljónir á sama tíma í fyrra. Tekjur drógust saman og námu tæpum 6,9 milljörðum króna samanborið við rúman 7,1 milljarð króna á sama tíma í fyrra.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, EBITDA, dróst einnig saman og nam 1,6 milljörðum króna samanborið við tæpa 2 milljarða árið áður.

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta lækkaði og nam 1,3 milljörðum króna samanborið við 2,4 milljarða í fyrra. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 896 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2016 en 1,8 milljörðum króna á sama tímabili 2015.

Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 53,1% í lok fyrsta ársfjórðungs og eigið fé 33,1 milljarðar króna. 

Haft er eftir Orra Haukssyni, forstjóra Símans, í afkomutilkynningu, að viðburðaríkir mánuðir séu að baki. „Fyrsti ársfjórðungur var krefjandi og styrkir okkur í trúnni um að viðskiptavinurinn sækist í auknum mæli eftir nýjungum, þjónustu og virði.“

Hann segir tekjur Símans af gagnaflutningi og upplýsingatækni hafa aukist. Hins vegar hafi sala auglýsinga á SkjáEinum reynst torsótt.

Fækkað um 80 stöðugildi

Eftir að vöruúrvali Símans var breytt síðastliðið haust lækkuðu áskriftartekjur í sjónvarpi um hríð en Orri segir ánægjulegt að sjá að áskrifendur að gagnvirkri áskrifendaþjónustu hjá Símanum séu orðnir fleiri en voru áður að hinni línulegu áskriftarsjónvarpsstöð SkjáEinum.

Á ársfjórðungnum hefur stöðugildum fækkað um nær 80 og telur sala á dótturfélögunum Staka og Talenta rúman þriðjung þar af. Hækkun á öðrum rekstrarkostnaði milli ára skýrist helst á breytingum á starfsmannahaldi.

Orri segir verðsamkeppni hafa harðnað og þá sérstaklega á farsímamarkaðnum auk þess sem ófyrirséðar launahækkanir vegna SALEK-samkomulagsins juku kostnað Símans í einu vetfangi.

Einnig samdráttur hjá samkeppnisaðila

Samkeppnisaðilinn Vodafone tilkynnti einnig samdrátt í gær. Hagnaður Fjar­skipta dróst sam­an um sex­tán pró­sent milli ára og nam 198 millj­ón­um króna á fyrsta árs­fjórðungi.  For­stjóri sagði hækk­un launa­kostnaðar í tengsl­um við kjara­samn­inga og ein­skipt­isliði í tengsl­um við hagræðing­araðgerðir hafa tals­verð áhrif.

Frétt mbl.is: Samdráttur hjá Vodafone

Síminn.
Síminn.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK