Bæta vefi fyrir blinda

Siteimprove aðstoðar fyrirtæki og stofnanir við aðgengismál.
Siteimprove aðstoðar fyrirtæki og stofnanir við aðgengismál. Morgunblaðið/Ernir

Danska fyrirtækið Siteimprove var stofnað af bræðrum árið 2003 en hefur í dag skrifstofur í tíu löndum og hátt í 400 starfsmenn um allan heim.

Fyrirtækið sérhæfði sig upprunalega í því að finna brotna hlekki á vefsíðum en í dag sinnir það vefgreiningu og hjálpar fyrirtækjum og stofnunum að gera síðurnar sínar eins aðgengilegar og mögulegt er, hvort sem það þá varðar aðgengi fyrir ólíka samfélagshópa eða leitarvélabestun.

Sigurður Orri Guðmundsson, viðskiptastjóri Siteimprove á Íslandi, var fenginn til að kanna hvort íslenski markaðurinn væri opin fyrir slíkum lausnum og á innan við ári hafa yfir 30 íslensk fyrirtæki tryggt sér þjónustu fyrirtækisins. Á morgun fer fram önnur ráðstefna fyrirtækisins hér á landi þar sem fjallað verður um allt það mikilvægasta á sviði vefstjórnunar.

„Við erum með staðla sem opinber fyrirtæki og stofnanir þurfa að uppfylla. Til þess að vefsíða sé aðgengileg öllum, veri það blindir einstaklingar, fatlaðir einstaklingar, sjónskertir, litblindir eða aðrir sem mæta erfiðleikum við notkun vefsins, þarf að hjálpa stofnunum að hafa aðgengið í lagi.“

Þurfa að hlusta á allt URL-ið

Sigurður Orri nefnir sem dæmi þá erfiðleika sem blindir mæta við notkun vefsíðna en blint fólk notast oft við skjálesara til þess að lóðsa sig um veraldarvefinn.

„Ef það er mynd á vefnum gefur auga leið að blindir geta ekki séð hana. Þess vegna þarf lýsingu á bakvið myndina. Þetta heitir „alternative texti“, eða bara myndatexti á íslensku, og ef þetta er ekki til staðar fær blindi einstaklingurinn þess í stað að heyra slóðina á myndinni. Skjálesarinn les það sem er á síðunni og les þannig allt URL-ið.“

Þetta segir Sigurður Orri aðeins eitt dæmi um þau verkefni sem Siteimprove sinni. Fyrirtækið bendi á allar þær myndir sem vantar þennan myndatexta og í gegnum forrit fyrirtækisins geti viðskiptavinir lagað það sem betur má fara í sínum kerfum.

„Það er erfitt að ráðast í svona verkefni en forritið er í rauninni fullkomið hjálpartæki til þess að bæta úr svona hlutum. Það er mikil vitundarvakning í þessu akkúrat núna og það er okkur mikið kappsmál að þetta sé í lagi.“

130 manns hafa skráð sig á ráðstefnuna á morgun þar sem m.a. verður fjallað um fyrrnefnd aðgengismál en einnig um vef- og þarfagreiningu og hvernig koma gera megi vefsíður sýnilegri á leitarvélum á við Google.

Áhugasamir geta enn skráð sig á ráðstefnuna sem fram fer á Grand hótel og hefst klukkan 14:00 á morgun, miðvikudag. Skráning fer fram hér.

Sigurður Orri segir mikla vitundarvakningu meðal fyrirtækja og stofnana um …
Sigurður Orri segir mikla vitundarvakningu meðal fyrirtækja og stofnana um aðgengi.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK