Hagnaður VÍS dregst saman

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS.
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS. mbl.is/Styrmir Kári

Hagnaður Vátryggingafélags Íslands nam 145 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi, en til samanburðar var 733 milljóna króna hagnaður á sama fjórðungi í fyrra. Munar þar mestu um að tekjur af fjárfestingarstarfsemi eru mun minni en í fyrra. Þær námu 435 milljónum, í samanburði við 1.113 milljónir á fyrsta ársfjórðungi 2015.

Samsett hlutfall VÍS var 104,5%, sem er svipað og á sama ársfjórðungi í fyrra þegar það var 105,2%.

Iðgjöld námu alls 4,3 milljörðum króna og jukust um tæplega 9% á milli ára. Tjón á tímabilinu námu 3,4 milljörðum og jukust um 10% miðað við fyrsta ársfjórðung í fyrra.

Eignir VÍS námu 32,5 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins. Eiginfjárhlutfall stóð í 30,2% en það var 39,1% í lok mars í fyrra. VÍS hefur greitt út arð og keypt eigin hlutabréf á undanförnu ári, auk þess sem félagið gaf út víkjandi skuldabréf í lok febrúar sem lið í endurskipulagningu á fjármagnsskipan þess.

Stjórnendur vænta þess að ágætur vöxtur verði í iðgjöldum á þessu ári og að samsett hlutfall verði lægra en það var í fyrra.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, segir afkomuna á fyrsta ársfjórðungi hafa verið undir væntingum þrátt fyrir ágætan vöxt í innlendum iðgjöldum. „Afkoman litast af slakri afkomu af skaðatryggingastarfsemi en tap er af bæði frjálsum og lögboðnum ökutækjatryggingum á tímabilinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK