Hluthafar borga launahækkanir

Launahækkanir bíta í hagnað skráðra félaga.
Launahækkanir bíta í hagnað skráðra félaga. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Vísbendingar eru um að fyrirtæki séu að taka launahækkanir af hagnaði sínum, sem endurspeglast í uppgjörum félaga í Kauphöllinni og háu launahlutfalli. Líkt og fram hefur komið hefur hagnaður flestra skráðra félaga dregist saman milli ára.

Um þessar mundir eru félögin í Kauphöllinni að birta uppgjör fyrir fyrstu mánuði ársins. Í þeim uppgjörum sem birt hafa verið kristallast betur en áður að íslensk fyrirtæki finna vel fyrir launahækkunum og virðast þær naga býsna fast í hagnað félaganna, segir Greiningardeild Arion banka.

Hagnaður ætti að aukast í uppsveiflu

Í kjölfar uppgjörs Icelandair, Símans og Sjóvá í síðustu viku féll úrvalsvísitalan um samtals 6,5% á tveimur dögum. Þau þrjú uppgjör lituðust öll af launahækkunum og t.a.m. sagði forstjóri Icelandair Group, sem stendur undir nær fjórðungi markaðsvirðis í Kauphöllinni, að „Kostnaðarhækkanir, sérstaklega hvað varðar laun, og lækkun meðalfargjalda umfram áætlanir vega jafnframt þungt í því að EBITDA spá félagsins lækkar nú...“.

Þessi þróun blasir við ef við berum saman ársbreytingu tekna, kostnaðar og hagnaðs félaganna sem birt hafa uppgjör hingað til, segir Greiningardeildin.

Tekjur hafa almennt ekki breyst stórkostlega, þrátt fyrir aukin efnahagsumsvif, enda hefur verðlag breyst lítið.

Helstu undantekningarnar eru hjá N1, þar sem olíu- og bensínverð lækkaði milli ára auk þess sem félagið missti stóran viðskiptavin. Sá viðskiptavinur er önnur undantekningin, Icelandair, en tekjur Icelandair jukust um 10% á föstu gengi dollars. Einnig jukust eigin iðgjöld VÍS nokkuð eða um 9%.

Ef horft er á kostnaðarhliðina, nánar tiltekið rekstrarkostnað og launakostnað eftir atvikum, hefur hann vaxið á bilinu 9-25% hjá félögunum milli ára. Þetta hefur leitt til þess að hagnaður fyrir skatta hefur dregist saman milli ára hjá öllum félögunum nema VÍS, þar sem hagnaður jókst en þó fremur hófsamlega eða um 5%.

Að óbreyttu ætti hagnaður að aukast í efnahagsuppsveiflu eins og um þessar mundir, segir Greiningardeildin. Svo virðist hins vegar ekki vera.

Vaxtahækkun í þessu ástandi myndi fela í sér kaldar kveðjur …
Vaxtahækkun í þessu ástandi myndi fela í sér kaldar kveðjur til atvinnulífsins segir Arion. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Kaldar kveðjur verði vextir hækkaðir

„Þessi þróun þýðir að aukinn launakostnaðar hefur verið greiddur í meira mæli af hluthöfum í stað neytenda. Í ljósi þess væru það kaldar kveðjur til stjórnenda og eigenda fyrirtækja að hækka fjármagnskostnað þeirra með stýrivaxtahækkun. Einnig kæmi verulega á óvart ef peningastefnunefnd myndi aftur horfa fram hjá þessum áhrifaþætti líkt og í febrúar,“ segir Greiningardeildin sem spáir óbreyttum stýrivöxtum við næstu vaxtaákvörðun 11. maí nk.

„Er þetta eðlileg og góð þróun sem getur varað lengi?“ spyr Greiningardeildin.

Mögulegt er talið að ef eitt fyrirtæki á sama markaði neyðist til að hækka verð að þá freistist önnur til að fylgja á eftir.

Tíminn einn muni leiða í ljós hversu lengi og hve mikið fyrirtæki munu halda í sér að hækka verð.

Launahlutfall að ná sögulegu hámarki

Launahlutfallið, eða hlutur launa og tengdra gjalda í verðmætasköpun, bendi þá einnig til þess, að sögn Greiningardeildarinnar, að hluthafar hafi tekið aukinn kostnað að miklu leyti á sínar herðar og að sjálfbærni þeirrar þróunar sé óviss.

Launahlutfallið er í dag vel fyrir ofan sögulegu meðaltali, stefnir í að ná sögulegu hámarki á næstunni og fara nálægt 70% árið 2018.

Í ljósi þess er hægt að færa rök fyrir því að verðbólga muni aukast á einhverjum tímapunkti sem eykur líkur á stýrivaxtahækkunum, segir Greiningardeildin að lokum.

Launahlutfall fer að ná sögulegu hámarki.
Launahlutfall fer að ná sögulegu hámarki.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK