Tíðar útsölur ILVA hækka vöruverð

Verð á Felix rúmi var hækkað um 10.000 krónur í …
Verð á Felix rúmi var hækkað um 10.000 krónur í vikunni. Rúmið er á 20% afslætti í dag og þar með 20 krónum dýrara en það var um helgina. Mynd/Aðalsteinn Sigurðsson

Glöggir viðskiptavinir húsgagnabúðarinnar ILVA hafa tekið eftir að verð á nokkrum vörum hækkaði um tugi prósenta áður en tuttugu prósenta afsláttur var veittur af öllu í dag. 

Framkvæmdastjóri ILVA, Róbert Valtýsson, segir fyrirtækið hafa ákveðið að hætta með svokallað „Everyday Low Price“ fyrirkomulag en samkvæmt því eru ákveðnir vöruflokkar alltaf með lægri álagningu en aðrir.

Aðalsteinn Sigurðsson, vakti athygli á málinu á Facebook í morgun, en hann segir konu sína hafa farið í verslun ILVA um helgina og fundið rúm fyrir dóttur þeirra. Þegar auglýstur var 20% afsláttur af öllu í dag fóru hjónin aftur í búðina og ætluðu að kaupa rúmið. Var þá búið að hækka almenna verðið um 10.000 krónur og með 20% afslætti var rúmið þar með orðið 20 krónum dýrara en það hafði verið fyrr í vikunni.

Valdið misskilningi í búðinni

Róbert segir þetta tiltekna rúm hafa tilheyrt fyrrnefndum „Everyday Low Price“ flokki ásamt 22 öðrum vörum. Er sá flokkur nú alfarið úr sögunni og var því ekki einungis um verðhækkun fyrir þennan tilboðsdag að ræða.

Þessar vörur hafa almennt verið með lægri álagningu að sögn Róberts og hefur verðið á þeim ekki verið lækkað á tilboðsdögum. Nefnir hann sem dæmi svokallaða sófadaga sem voru í mars og bendir á að verð á einum tilteknum sófa, sem tilheyrði flokknum, hafi ekki lækkað. 

Ákveðið var að hætta með fyrirkomulagið vegna kvartana frá viðskiptavinum. „Þetta hefur valdið misskilningi í búðinni,“ segir Róbert og bætir við að margir viðskiptavinir hafi einfaldlega ekki skilið að sumar vörur lækkuðu ekki í verði. Nú muni verð á þessum vörum, líkt og á öllum öðrum, lækka á tilboðsdögum í versluninni.

Heildarafsláttur kemur niður á vöruverði

Aðspurður segir Róbert að álagningin á þessum vörum sé nú orðin svipuð og á öðrum vörum en áður var nánast engin framlegð af sölunni á þessum tilteknu vörum.

Tilboðsdagar eru nokkuð algengir í ILVA og aðspurður hvort almenn álagning sé hærri til þess að geta staðið undir því segir Róbert varla hægt að neita því. „Ef það er lenska fyrirtækja að vera með heildarafslátt af öllu kemur það niður á vöruverði. Ég þarf ekkert að ljúga neinu um það,“ segir hann.

„Einhvern veginn verða fyrirtæki að ná endum saman og borga sína skatta og skyldur,“ segir Róbert. 

Þurfa að hafa verið seldar á hærra verði

Þórunn Anna Árnadóttir, sviðsstjóri hjá Neytendastofu, segir meginregluna hvað útsölur varðar vera að varan þurfi að hafa verið seld á því verði sem er auglýst sem „verð fyrir lækkunina“, rétt fyrir lækkunina. Ekki nægir að varan hafi einhvern tímann verið á þessu verði eða að hún verði það eftir útsöluna.

Verslun ILVU í Korputorgi.
Verslun ILVU í Korputorgi. Skjáskot af já.is
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK