Hagnaður OR dregst saman

Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur.
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Hagnaður Orkuveitu Reykjavíkur (OR) dróst saman á fyrstu þremur mánuðum ársins og nam 2,5 milljörðum króna, borið saman við 3,3 milljarða hagnað á fyrsta ársfjórðungi 2015.

Í tilkynningu frá félaginu segir að veigamesta skýringin sé lægra álverð og lægra gengi Bandaríkjadals. Það hafi áhrif á reiknað verðmæti raforkusölusamninga og færist til gjalda í fjármagnsliðum uppgjörsins.

Rekstrarhagnaður félagsins fyrstu þrjá mánuði ársins var svipaður og síðustu ár. Tekjur hafa vaxið en á móti vega hærri laun með nýjum kjarasamningum. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 4.850 milljónum króna fyrstu þrjá mánuði ársins en var 4.831 milljón króna á sama tímabili 2015.

Árshlutareikningur samstæðu OR fyrir 1. ársfjórðung 2016 var samþykktur af stjórn OR í dag.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, segir að rekstur félagsins sé í traustu og góðu horfi, afkoman stöðug og fjárhagurinn styrkist hægt og bítandi.

„Við erum á síðasta ári Plansins, aðgerðaáætlunarinnar sem hleypt var af stokkunum vorið 2011. Við höfum þegar náð meginmarkmiði þess og nú styttist í að fjárhagsleg skilyrði til arðgreiðslna verði uppfyllt. Nú stendur yfir greining á afkomu allra rekstrarþátta OR. Niðurstaða hennar verður efniviður í að móta framtíðarsýn í rekstri samstæðunnar þegar Planinu lýkur,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK