Komið nóg fyrir sólmyrkvaskuldinni

Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.
Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Almenningur sló fast í borðið í gær þegar fréttir bárust af gjaldþroti Stjörnufræðivefjarins. Með samhentu átaki safnaðist nóg til að greiða skuldina sem olli gjaldþrotinu og gott betur. Sævar Helgi Bragason hefur á síðustu árum lagt um tvær og hálfa milljón í vefinn úr eigin vasa.

„Ég hef ekki kíkt á þetta í morgun en í gærkvöldi var komið rétt rúmlega það sem þurfti til,“ segir Sævar sem var á leið á fund skattyfirvalda og endurskoðanda til að reyna að finna lausn á málinu þegar mbl.is náði af honum tali. 

Líkt og mbl.is greindi frá í gær var Stjörnufræðivefurinn úrskurðaður gjaldþrota á dögunum vegna 450 þúsund króna skuldar sem rekja mátti til sólmyrkvagleraugnanna sem Stjörnufræðivefurinn gaf og seldi í fyrra. Alls voru gleraugun 72 þúsund talsins en 54 þúsund stykki voru gefin grunnskólabörnum. Restin var seld á 500 krónur stykkið til að standa undir gjöfinni. Af sölunni þurfti síðan að greiða 450 þúsund króna virðisaukaskatt sem Sævar ætlaði að greiða úr eigin vasa þar sem endar náðu ekki saman hjá félaginu. Svo fór hins vegar sem fór og vísar Sævar meðal annars til misskilnings hjá endurskoðanda.

Frétt mbl.is: Gjaldþrot vegna sólmyrkvagleraugna

Stjörnufræðivefurinn útvegaði Íslendingum 72 þúsund sólmyrkvagleraugu.
Stjörnufræðivefurinn útvegaði Íslendingum 72 þúsund sólmyrkvagleraugu.

Nýr og endurbættur vefur í haust

„Það er ótrúlega gaman að fólk skuli sýna okkur svona mikla velvild og ég er eiginlega bara alveg orðlaus,“ segir Sævar.

Stjörnufræðivefurinn hefur lengi verið með opinn styrktarreikning fyrir þá sem vilja leggja starfseminni lið. Engar auglýsingar eru hins vegar á vefnum. Sævar segir að lítið hafi ratað inn á reikninginn hingað til þrátt fyrir að hann hafi reynt ýmislegt. Hefur hann því sjálfur þurft að standa undir rekstrinum og hljóðar samanlagður reikningur upp á tvær og hálfa milljón króna. Það er fyrir utan alla vinnuna sem unnin er í sjálfboðavinnu.

Á þessu verður þó mögulega breyting á næstunni þar sem Sævar stefnir á að opna nýjan og endurbættan Stjörnufræðivef í haust. Vefurinn verður meðal annars gerður snjallsímavænn og er gert ráð fyrir auglýsingaplássi. 

„Við sjáum að vefurinn er mikið notaður í skólum á öllum skólastigum og fólk er einnig mikið í spjaldtölvum og símum. Við ákváðum því að taka til og breyta vefnum og það kostaði náttúrulega sitt líka,“ segir Sævar. 

Samhliða þessu verður opnuð norðurljósaupplýsingasíða sem nú er í bígerð. „Þar verða nýjar upplýsingar sem fólk hefur hingað til ekki haft neinn sérstakan aðgang að. Það kemur til með að nýtast ferðaþjónustuaðilum og fleirum sem hafa áhuga á norðurljósunum,“ segir hann.

Grunnskólabörn fengu gleraugun gefins.
Grunnskólabörn fengu gleraugun gefins. mbl.is/Júlíus

Gróði ekki markmiðið

Sævar segir fyrirhugaða auglýsingasölu að minnsta kosti vera viðleitni í átt að því að afla einhverra tekna þótt ekki væri nema bara til þess að borga reksturinn.

„Ég ræð ekki endalaust við það að borga milljón á ári með þessu. Mér er alveg sama þótt ég græði ekkert á þessu og það er alls ekki markmiðið,“ segir hann. „En ef það kemur eitthvað sem gerir okkur kleift að byggja upp og gera meira skemmtilegt verður peningurinn notaður í það,“ segir Sævar.

Frétt mbl.is: Afskaplega þakklátur og hálfhrærður

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK