Vaxtahækkanir á komandi mánuðum

Janet Yellen, bankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna.
Janet Yellen, bankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna. AFP

Janet Yellen, bankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna, segist eiga von á því að stýrivextir bankans hækki á komandi mánuðum ef efnahagsbatinn í landinu haldi áfram.

„Ef staðan á vinnumarkaðinum heldur áfram að batna, og ég á von á því að það gerist, þá er slík hækkun yfirvofandi á komandi mánuðum,“ sagði hún á ráðstefnu við Harvard-háskóla í gær.

Nefndarmenn peningastefnunefndar bankans munu funda næst 14.–15. júní næstkomandi og ákveða þá næstu skref.

Seðlabankinn hækkaði stýrivextina um 0,25% í fyrsta sinn í níu ár í desember síðastliðnum. Áður höfðu þeir verið sögulega lágir.

Yellen sagði að efnahagsbatinn hefði ekki verið nægilega sterkur í fyrra, en svo virtist sem hagvöxtur væri nú að taka við sér.

Fregnir bárust af því í gær að hagvöxtur hefði verið 0,8% á fyrstu þremur mánuðum ársins, en áður var talið að hann yrði um 0,5%.

Þá mældist atvinnuleysi 5,5% í maímánuði, sem þykir nokkuð lágt, en Yellen viðurkenndi þó að enn væri verk fyrir höndum. Margir hlutastarfsmenn væru enn að leita að fullri vinnu, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Þá vill seðlabankinn að verðbólga hækki í 2% en hún hefur haldist undir því um nokkurt skeið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK