Hagvöxtur minni en fyrir kreppu

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sótti ársfund Alþjóðagreiðslubankans í Basel í Sviss sem var haldinn síðastliðinn sunnudag. Alþjóðagreiðslubankinn er í eigu sextíu seðlabanka og er vettvangur alþjóðlegs samstarfs seðlabanka, auk þess að vera rannsóknasetur og banki fyrir seðlabanka heimsins.

Á ársfundinum var lögð fram ársskýrsla BIS en í henni er auk reikninga bankans greinargerð um ástandið í heimsbúskapnum og fjallað er um þau viðfangsefni sem helst snúa að seðlabönkum, að því er fram kemur í frétt Seðlabankans.

Á fundinum gerði Jaime Caruana, aðalframkvæmdastjóri Alþjóðagreiðslubankans, grein fyrir meginskilaboðum ársskýrslunnar.

Aðlögun heimsbúskaparins í framhaldi af fjármálakreppunni og efnahagssamdrættinum sem fylgdi í kjölfarið stendur enn yfir. Hagvöxtur hefur að undanförnu verið ójafn og minni en fyrir kreppuna. Hann er þó meiri en ætla mætti af umræðunni og yfir sögulegu meðaltali ef leiðrétt er fyrir fólksfjöldaþróun. Aðlögunin er enn ófullkomin og traust er brothætt. Þá hafa vextir lækkað frekar og sveiflur gjaldmiðla og hrávöru hafa verið miklar.

Aðalframkvæmdastjórinn talaði um áhættusama þrennu sem eru skuldaaukning, lítil framleiðniaukning og þrengra svigrúm hagstjórnar. Af þessu leiðir þrenns konar hætta, þ.e. efnahagslegur óstöðugleiki, mjög lágir vextir og glatað traust til hagstjórnar. Við þessar aðstæður þyrfti framlag ríkisfjármála og skipulagsumbóta til hagstjórnar að vera meira.

Reikningar Alþjóðagreiðslubankans eru gerðir upp í sérstökum dráttarréttindum (SDR). Á síðasta reikningsári, sem lauk 31. mars 2016, nam hreinn hagnaður bankans tæpum 413 milljónum SDR eða sem svarar rúmum 71 milljarði króna. Á ársfundinum var ákveðið að greiða arð sem nemur 215 SDR á hlut. Þar sem Seðlabanki Íslands á 1.070 hluti í bankanum fær hann greiddan arð sem nemur tæpum 40 milljónum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK