Betri í stuðningi en reikningi

Tólfan verður víst á leiknum eftir allt saman.
Tólfan verður víst á leiknum eftir allt saman. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Kexverksmiðjan Frón hefur veitt Tólfunni þrjú hundruð þúsund króna ferðastyrk og 22 meðlimir stuðningsmannahópsins eru komnir með frían flugmiða til Parísar. Frón skoraði á önnur fyrirtæki að gera slíkt hið sama en að sögn Styrmis Gíslasonar, stofnanda Tólfunnar, hafa fleiri styrkir ekki borist. 

Hann segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi og Tólfan íhugar nú að koma á fót styrktarsíðu eða -reikningi þar sem hægt verður að leggja eitthvað af mörkum til að koma þeim á völlinn. Að sögn Styrmis eru átján manns í kjarna Tólfunnar en fimm meðlimir hafa sérstakt leyfi til að mæta fyrr á völlinn og koma fyrir trommum, fánum og öðru tilheyrandi. Ekki er því hægt að fela hverjum sem er það verkefni úr þessu.

Ýmis falinn kostnaður

Að sögn Styrmis eru vasar meðlima Tólfunnar orðnir tómir eftir Frakklandsdvölina þrátt fyrir að hafa alveg reiknað með því að liðið kæmist svona langt. Hann segir ýmsan faldan kostnað hafa verið í ferðinni og nefnir þar til dæmis geymslu á trommum, leigubíla með trommur og annað slíkt sem ekki var reiknað með. „Kannski erum við bara ekkert sérstaklega góðir í reikningi. Við erum bara góðir að styðja,“ segir Styrmir og hlær.

Meðlimir Tólfunnar taka því öllum mögulegum styrkjum frá fyrirtækjum fagnandi að sögn Styrmis. Þrátt fyrir að nokkrir miðar til Frakklands séu komnir sé allur kostnaður við gistingu og uppihald eftir. Þar sem Tólfan gerði ekki ráð fyrir að fara á leikinn festu meðlimir þó ekki kaup á miðum en Styrmir telur að auðvelt verði að bjarga því.

Meðlimir Tólfunnar eru komnir með 22 flugmiða til Frakklands.
Meðlimir Tólfunnar eru komnir með 22 flugmiða til Frakklands. mbl.is/Golli

Bjuggust fáir við þessari stöðu

Líkt og áður segir hefur Kexverksmiðjan Frón veitt Tólfunni þrjú hundruð þúsund króna ferðastyrk og skorað á aðra að gera slíkt hið sama. Hjördís Ólafsdóttir hjá Fróni hefur ekki heyrt af öðrum sem hafa tekið af skarið en vonar að svo verði. „Það bjuggust kannski fáir við því að við myndum fara svona langt og það verður bara að taka því fagnandi og styðja okkar fólk,“ segir hún. „Það er dýrt að ferðast og það kostar mikið að fara út með þessi tól og tæki.

Þetta er tækifæri fyrir lítil og stór fyrirtæki. Það þurfa ekkert allir að leggja það sama í þetta en það er nóg að leggja bara eitthvað af mörkum,“ segir Hjördís. „Þetta er svo sögulegt. Ef við bregðumst ekki við núna veit ég ekki alveg hvenær það ætti að vera,“ segir Hjördís létt í bragði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK