Englandsbanki mun lækka vexti

Mark Carney, bankastjóri Englandsbanka.
Mark Carney, bankastjóri Englandsbanka. AFP

Mark Carney, bankastjóri Englandsbanka, segir að bankinn muni líklegast þurfa að lækka stýrivexti á komandi mánuðum til þess að milda höggið af áhrifum yfirvofandi brotthvarfs Breta úr Evrópusambandinu á breska hagkerfið.

Í ræðu í dag notaði bankastjórinn tækifærið til þess að fullvissa stjórnendur fyrirtækja og fjárfesta um að bankinn hefði stjórn á aðstæðum og væri jafnframt að íhuga að grípa til frekari aðgerða til þess að tryggja efnahagslegan stöðugleika.

Hann gaf skýrlega til kynna að stýrivextir bankans yrðu lækkaðir, jafnvel strax í næsta mánuði. Þeir eru nú í sögulegu lágmarki, 0,5%.

Peningastefnunefnd Englandsbanka á erfitt val fyrir höndum, að sögn Carneys.

Að hans mati hefðu efnahagshorfur í Bretlandi versnað vegna niðurstaðna þjóðaratkvæðagreiðslunnar í síðustu viku. Bankinn þyrfti líklegast að auka lausafé á fjármálamarkaði á næstu mánuðum, að því er fram kemur í frétt The Guardian.

Stýrivextirnir hafa verið 0,5% í meira en sjö ár. Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna höfðu hagfræðingar gert ráð fyrir að vextirnir yrðu frekar hækkaðir en lækkaðir.

Sjálfur varaði Carney við því að hætta væri á kreppu í Bretlandi, þ.e. að samdráttur yrði í hagkerfinu tvo ársfjórðunga í röð, segðu Bretar skilið við Evrópusambandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK