Útsölur hófust víða í gær

Útsalan í IKEA hófst í gær.
Útsalan í IKEA hófst í gær. mbl.is/Eyþór Árnason

„Við sjáum það að fólk gengur mjög ákveðið til verks,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi. Útsölur hófust víða í gær og fóru vel af stað að sögn forsvarsmanna verslunarmiðstöðvanna. 

Útsalan í IKEA hófst viku fyrr en venjulega. „Við áttuðum okkur ekki á því að þetta væri sami dagur og útsölurnar hófust í Smáralind og Kringlunni en þetta gekk vonum framar og það var mikil aðsókn,“ segir Þórarinn.

Hann segir að um þriðjungur af vöruúrvali IKEA endurnýist á ári hverju en auðvitað séu alltaf ákveðnar vörur sem haldist í sölu eins og til dæmis Billy- og Lackvörurnar. Þá dreifist útsalan jafnt niður á allar deildir verslunarinnar en hún mun standa til 7. ágúst næstkomandi. Þórarinn segir fólk ganga ákveðið til verks og greinilegt að margir séu búnir að finna þá hluti sem þeir ætla að kaupa eða vonast eftir að fari á útsölu.

Útsölur hófust víða í gær.
Útsölur hófust víða í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útsölur hófust einnig í verslunarmiðstöðvunum Kringlunni og Smáralind í gær en margar verslanir voru þó með forútsölur á miðvikudagskvöld. Að sögn Sigurjóns Arnar Þórssonar, framkvæmdastjóra Kringlunnar, fór útsalan þar af stað með hefðbundnu móti í gær.

Það var margt um manninn upp í Kringlu frá morgni til kvölds en opið var til níu í gærkvöldi. Vöxtur hefur verið bæði í aðsókn og veltu í Kringlunni á árinu. „Með auknum kaupmætti eykst verslun að að sama skapi, þetta helst allt í hendur með batnandi kjörum,“ segir Sigurjón Örn.

„Það er stór helgi framundan, mikið að gera og mikil stemning,“ segir Guðrún M. Örnólfsdóttir, markaðsstjóri Smáralindar. Hún segir útsöluna hafa farið af stað með trukki í gær en einhverjar verslanir voru með forútsölur á miðvikudagskvöld.

Útsölunum í Kringlunni og Smáralind lýkur svo í kringum verslunarmannahelgina með götumörkuðum áður en búðirnar fyllast af haustvörum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK