Góð lending fyrir flugvöllinn á Húsavík

Húsavíkurflugvöllur er skammt utan Húsavíkur og þangað hefur mikill vöxtur …
Húsavíkurflugvöllur er skammt utan Húsavíkur og þangað hefur mikill vöxtur verið í flugi enda miklar framkvæmdir í Norðurþingi. Ljósmynd/Isavia

Hafnar eru framkvæmdir við endurbætur á Húsavíkurflugvelli. Endurnýja á ljósakerfi, slitlag á flugbraut og flugvélastæðum. Um nokkurra ára skeið var ekkert áætlunarflug á flugvellinum, en það hófst aftur árið 2012. Endurbæturnar eru nauðsynlegar til að mæta þeim mikla vexti sem verið hefur í flugumferð um völlinn en flugfélagið Ernir flýgur til Húsavíkur með ferðamenn og þá sem vinna við kísilverið á Bakka við Húsavík og Þeistareyki.

Framkvæmdir hófust í byrjun júlí en verklok eru áætluð í lok september á þessu ári. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia felst verkið í endurnýjun slitlaga, sem er olíumöl. Slitlagið sem er fyrir á vellinum er orðið gamalt og farið að láta verulega á sjá. Nýtt slitlag er því nauðsynlegt til að viðhalda vellinum og koma brautinni og flughlaðinu í gott ástand. Einnig verða endurnýjuð flugbrautarljós, aðflugshallaljós og ljós við flugvélastæði. Nýju ljósin eru mun öflugri en þau eldri og lýsa mun skærar, svo það verður mikill munur fyrir notendur vallarins að fá ný ljós, samkvæmt Isavia. Heildarkostnaður vegna framkvæmda við flugbrautina eru um 170 milljónir króna en þær eru hluti af samgönguáætlun. Að auki hafa verið í gangi framkvæmdir við viðhald á flugstöðvarbyggingunni.

Fjölga ferðum eða mannskap

Hörður Guðmundsson, forstjóri flugfélagsins Ernis, segist finna vel fyrir aukningunni og er ánægður með viðhaldið á flugbrautinni og flugstöðinni.

„Það hefur staðið til í einhvern tíma að fara í þessar framkvæmdir því það hefur orðið veruleg aukning á flugi til Húsavíkur sem rekja má til framkvæmda undanfarin misseri, sem er af hinu góða fyrir okkur þótt við búumst við að þetta sé tímabundinn vöxtur. Það sem vantar upp á er að kveikja aftur á aðflugsbúnaðinum, sem er fjarlægðarmælir og línusendir sem beinir vélum beint inn á braut. Það var slökkt á þeim búnaði fyrir nokkrum árum og hann hefur ekki verið endurnýjaður. Það er bráðnauðsynlegt að kveikja aftur á þessum búnaði í kjölfar þessara framkvæmda sem nú standa yfir en það hefur því miður verið býsna erfitt að fá fólk til að skilja nauðsyn þess að koma þessum búnaði aftur í gagnið,“ segir Hörður.

Ernir flýgur yfirleitt á Jetstream 32-flugvélinni til Húsavíkur sem er hraðfleyg skrúfuþota og tekur allt að 19 farþega. Yfirleitt er uppselt í ferðirnar þó að Hörður segi að það séu ekki aðeins þeir sem eru að vinna við Bakka og Þeistareyki því ferðamenn séu einnig duglegir að nýta sér flugferðirnar, enda stutt í Mývatnssveit, hvalaskoðun á Húsavík og í aðrar perlur Norðausturlands. „Við erum að reyna að fjölga ferðum til að fullnægja þörfinni en það kostar aukamannskap og þá vakna spurningar um hvort þarf að stækka vélarnar, fækka ferðum, fjölga mannskap eða fjölga ferðum. Þetta togast á og þær stærðir sem við erum með af flugvélum hafa verið að henta vel á þá staði sem við fljúgum á. En þegar svona stökk verður í pöntunum þarf annaðhvort að stækka vélar eða fjölga ferðum. Það er dýrt að breyta um vélartegund og enn sem komið er höfum við ekki séð að það sé alveg komið að því enn þá. Vonandi gerist það einhvern tímann,“ segir Hörður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK