Philip Green kennt um hrun BHS

Breski kaupsýslumaðurinn Sir Philip Green.
Breski kaupsýslumaðurinn Sir Philip Green. AFP

Philip Green og öðrum sem „urðu ríkir“ af rekstri bresku verslunarkeðjunnar BHS, eða British Home Store, er kennt um gjaldþrot keðjunnar í nýrri og viðamikilli skýrslu breskrar þingmannanefndar. Er hrun félagsins tekið sem dæmi um hið „óásættanlega andlit kapítalismans“.

Skýrsluhöfundar benda meðal annars á að Philip Green, fyrrum eigandi BHS, hafi tekið miklar fjárhæðir úr félaginu þannig að það hafi vart átt sér viðreisnar von.

Þá telur nefndin að Green hafi reynt að komast hjá því að greiða áfallnar lífeyrisskuldbindingar starfsmanna BHS og að það klúður hans hafi átt stóran þátt í hruni félagsins.

Green lofaði í yfirheyrslu í breska þinginu í síðasta mánuði að leysa „lífeyrisvandann“.

Skýrsla nefndarinnar

Hann sagðist þá jafnframt hafa fjárfest fyrir samtals um 800 milljónir punda í BHS á þeim fimmtán árum sem hann átti félagið til þess að reyna að rétta reksturinn við.

Niðurstöðurnar áhyggjuefni

Talskona Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, sagði niðurstöður skýrslunnar áhyggjuefni. Brýnt væri að grípa til aðgerða til þess að tryggja að „kapítalisminn virki fyrir alla, ekki bara örfáa“.

Þingmaðurinn Frank Field, sem stýrði rannsókn þingmannanefndarinnar, sagði að Green ætti að skrifa undir tékka fyrir „að minnsta kosti“ 571 milljón punda. Það er fjárhæðin sem BHS skuldar starfsmönnum sínum í lífeyrisgreiðslur.

„Það er einn maður og aðeins einn maður sem ber ábyrgð á hörmungum BHS,“ sagði hann og átti við Green. Green hefði stýrt fyrirtækinu í þrot og honum ætti að vera refsað. Meðal annars hefur verið rætt um að svipta Green riddaratign sinni.

Field sagði jafnframt að breski forsætisráðherrann ætti að veita Green makleg málagjöld. Menn ættu ekki að komast upp með svona lagað.

Green kom fyrir þingmannanefndina í síðasta mánuði.
Green kom fyrir þingmannanefndina í síðasta mánuði. AFP

Vítaverð háttsemi

Vinna nefndarinnar stóð yfir í þrjá mánuði. Ræddu nefndarmenn við fjölmarga sem tengjast verslunarkeðjunni og var niðurstaða skýrslunnar sú að „stórum hluta þeirra sem urðu ríkir af rekstri BHS er um að kenna” að félagið hafi farið í geiðslustöðvun.

„Háttsemi Sir Philip Greens, Dominic Chappells og framkvæmdastjóranna, ráðgjafanna og fylgismanna þeirra er vítaverð,“ sagði í skýrslunni.

Bandaríski bankinn Goldman Sachs, breska lögmannsstofan Olswang og endurskoðunarfyrirtækið Grant Thornton voru jafnframt harðlega gagnrýnd fyrir þátt þeirra í sölu BHS til Chappel í marsmánuði árið 2015. Eins og kunnugt er seldi Green BHS til fyrrum kappakstursökumannsins Chappell á aðeins eitt pund.

Ári síðar var fyrirtækið farið í gjaldþrot.

Ákvörðun Greens um að selja Chappell fyrirtækið er gagnrýnd í skýrslunni og bent á að svo virðist sem Chappell hafi ekki haft bolmagn til þess að reka stóra verslunarkeðju sem þessa.

Auk þess er Green gagnrýndur fyrir að hafa tekið um 400 milljónir punda í arð út úr fyrirtækinu. Hann hefur reyndar sagst hafa lagt mun hærri fjárhæðir inn í fyrirtækið þegar hann átti það.

„Það sorglega er að þeir sem töpuðu á þessu öllu saman voru venjulegir starfsmenn og lífeyrisþegar,“ sagði í skýrslunni.

Vildi kaupa skuldir Baugs

Eins og kunnugt er lýsti Green yfir áhuga á að kaupa skuldir Baugs við Kaupþing skömmu eftir bankahrunið 2008 með 95% afslætti.

Philip Green var á sínum tíma viðskiptafélagi Baugs og keypti hlut félagsins í verslunarkeðjunni Arcadia í september 2002. Hagnaður Baugs af þeim viðskiptum nam um átta milljörðum króna, að því er fram kom í Morgunblaðinu á þeim tíma.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK