Philip Green hótar lögsókn

Breski kaupsýslumaðurinn Philip Green.
Breski kaupsýslumaðurinn Philip Green. AFP

Lögmenn breska kaupsýslumannsins Philips Greens hafa farið fram á að þingmaðurinn Frank Field, sem sat í forsvari fyrir þingmannanefnd sem rannsakaði orsakir falls bresku verslunarkeðjunnar BHS, fyrrverandi fyrirtækis Greens, biðji skjólstæðing sinn afsökunar á ummælum sem hann lét falla um Green í breskum fjölmiðlum í gær.

Field fór mikinn í fjölmiðlum í gær, sama dag og skýrsla þingmannanefndarinnar kom út, og kallaði meðal annars eftir því að Philip Green yrði sviptur riddaratign sinni.

Green, sem var eigandi BHS í fimmtán ár, var harðlega gagnrýndur í skýrslu nefndarinnar. BHS fór í greiðslustöðvun fyrr á þessu ári, ári eftir að Green seldi fyrirtækið fyrir eitt pund.

Þar kemur meðal annars fram að Green hafi „með kerfisbundnum hætti tekið hundruð milljóna punda úr BHS“, greitt mjög lága skatta og hagnast ævintýralega á meðan fyrirtækið sigldi í gjaldþrot.

Green er meðal annars sakaður um að hafa reynt að komast hjá því að greiða áfallnar lífeyrisskuldbindingar starfsmanna BHS upp á 571 milljón punda.

Frétt mbl.is: Vilja svipta Green riddaratign

Öllum verslunum keðjunnar verður lokað fyrir september, en keðjan sótti um greiðslustöðvun í apríl síðastliðnum.

Green seldi Dominic Chappell keðjuna fyrir eitt pund síðasta sumar. Salan hefur verið harðlega gagnrýnd, en Chappell, sem er fyrrverandi kappakstursökumaður, hafði enga reynslu af fyrirtækjarekstri.

Field sagði í útvarpsviðtali við breska ríkisútvarpið í gær að Green bæri höfuðábyrgð á hruni BHS. Hann hefði „hegðað sér eins og Napóleon“, farið ránshendi um fyrirtækið og yrði nú að greiða lífeyrisskuldbindingarnar. Annað kæmi ekki til greina.

Segja ummælin ærumeiðandi

Lögmenn Greens telja að ummæli Fields, sem er þingmaður Verkamannaflokksins, hafi verið ærumeiðandi og röng.

„Í viðtalinu sakaðir þú skjólstæðing okkar um að hafa stolið peningum, nánar tiltekið úr lífeyrissjóðum BHS og Arcadia. Þessi staðhæfing er mjög ærumeiðandi og algjörlega röng,“ segir í bréfi lögmannanna til Fields.

Frank Field, þingmaður breska Verkamannaflokksins.
Frank Field, þingmaður breska Verkamannaflokksins. AFP

„Skjólstæðingur okkar hefur aldrei stolið peningum frá BHS, Arcadia eða lífeyrissjóðunum og þú veist það.“ Ekkert í skýrslu þingmannanefndarinnar styddi aukinheldur staðhæfingar þingmannsins.

„Ásakanir um að skjólstæðingur okkar sé þjófur eru augljóslega til þess fallnar að valda honum alvarlegum skaða,“ bættu lögmennirnir við.

Krefjast þeir þess að Field biðjist afsökunar á ummælum sínum. Annars eigi hann yfir höfði sér kæru.

Þingmaðurinn segist hins vegar vera hvergi banginn. Hann segir að í stað þess að skrifa undir stóran tékka, og bæta upp fyrir klúðrið, hóti Green lögsóknum.

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK