Væntingar lækka en bjartsýni þó ríkjandi

Bjartsýni neytenda á sér góðar og gildar skýringar, að sögn …
Bjartsýni neytenda á sér góðar og gildar skýringar, að sögn greiningardeildar Íslandsbanka. mbl.is/Styrmir Kári

Væntingavísitala Gallups mældist 124,9 stig í júlímánuði og lækkaði um tæp ellefu stig á milli mánaða. Vísitalan er þó 26 stigum hærri en hún var í sama mánuði í fyrra og endurspeglar talsvert almenna bjartsýni.

Þetta kemur fram í umfjöllun greiningar Íslandsbanka. Þar segir að líkt og undanfarin ár hafi væntingar íslenskra neytenda lækkað nokkuð á milli mánaða í júli. Bjartsýni sé þó ríkjandi, enda hafi aðstæður heimila batnað umtalsvert að jafnaði undanfarin misseri.

Eru horfur á að íslensk heimili nýti hagstæðar aðstæður til þess að auka neyslu sína verulega í ár.

Undanfarin þrjú ár hefur væntingavísitalan raunar fallið einnig talsvert í júlímánuði og kann hér að vera um árstíðarbundin áhrif að ræða.

Allar undirvísitölur vísitölunnar lækkuðu nokkuð á milli mánaða, en eru þó allar eftir sem áður talsvert yfir 100 stiga jafnvægisgildinu, á milli bjartsýni og svartsýni á meðal íslenskra neytenda, líkt og sjálf væntingavísitalan.

Hagur heimilanna vænkast

Greiningardeildin bendir á að bjartsýni neytenda um þessar mundir eigi sér góðar og gildar skýringar.

„Hagur heimilanna hefur að jafnaði vænkast myndarlega undanfarin misseri. Skuldir þeirra hafa minnkað, fasteignir hækkað í verði og starfandi Íslendingum hefur fjölgað jafnt og þétt. Síðast en ekki síst hafa laun hækkað hratt á sama tíma og verðbólga hefur verið afar hófleg vegna styrkingar krónu og hagfelldrar verðþróunar á hrávörum og eldsneyti erlendis.

Horfur eru á að íslensk heimili nýti hagstæðar aðstæður til …
Horfur eru á að íslensk heimili nýti hagstæðar aðstæður til þess að auka neyslu sína verulega í ár. mbl.is/Eggert

Aukning kaupmáttar launa hefur því verið mun meiri undanfarið en á sambærilegum tímabilum mikilla launahækkana á undanförnum áratugum, þegar verðbólga var veruleg á sama tíma,“ segir í umfjöllun Íslandsbanka.

Hröð aukning kaupmáttar

Nýlegar tölur Hagstofunnar um launa- og kaupmáttarþróun dragi þetta skýrt fram. Í júní hækkaði launavísitala Hagstofunnar um 1,5% frá mánuðinum á undan. Frá sama mánuði í fyrra nemur hækkunin 12,5%. Á sama tímabili mældist verðbólga 1,6%, og kaupmáttur launa jókst því um 10,7% á tímabilinu.

„Þótt enn gæti áhrifa af tveimur samningsbundnum launahækkunum hjá hluta launþega innan þessa 12 mánaða tímabils, og framundan séu hóflegri samningsbundnar hækkanir næstu ár, er ekki að undra að heimilin telji hag sinn mun vænni nú en áður eftir slíka kjarabót. Kaupmáttaraukningin hefur einnig endurspeglast í hagtölum sem gefa til kynna þróun einkaneyslu hérlendis, s.s. kortaveltu og innflutningi neysluvara,“ segir greiningardeildin.

Hún telur því að einkaneysla muni vaxa hratt á yfirstandandi ári. Kann spá hennar frá júníbyrjun um 7,8% vöxt einkaneyslu á milli ára að hafa verið hófleg fremur en hitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK